136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U):

Virðulegi forseti. Ég flyt ásamt þingmönnunum Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni eftirfarandi þingsályktunartillögu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. norsku krónuna í samráði og samstarfi við norsk stjórnvöld. Reynist þess ekki kostur verði kannaðir möguleikar á að taka upp evru sem gjaldmiðil, með eða án samráðs við Evrópusambandið.“

Meginatriðið í sambandi við þessa þingsályktunartillögu er það að fyrir liggur, að okkar mati, að íslenska krónan hefur ekki dugað og það hefur ekki gengið að hafa þann gjaldmiðil þannig að nokkurt öryggi væri í. Það eru of miklar sveiflur og nú nýlega hefur komið í ljós að það versta sem menn höfðu spáð kom fram. Algert efnahagshrun varð og það varð jafnalvarlegt og raun ber vitni vegna þess að við bjuggum við gjaldmiðil eins og íslensku krónuna á minnsta myntsvæði heims þar sem engar varnir voru fyrir hendi til að taka á málum ef til alvarlegra atburða kæmi.

Þetta hefur legið fyrir og þessu áttu menn að geta gert sér grein fyrir. Sú vegferð sem farin var í sambandi við það að setja krónuna á flot, láta gengið fljóta, var óvarleg og varað var við henni af mörgum, m.a. af þeim sem hér stendur. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir margvísleg varnaðarorð, var haldið áfram þangað til það var ekki lengur hægt eða svo gott sem. Vegferðin endaði að sinni með því að víðtæk gjaldeyrishöft voru sett á laggirnar svipað og gerðist í lok stríðsáranna eftir síðari heimsstyrjöld. Frammi fyrir því stöndum við eftir það ólán að reyna að halda uppi gjaldmiðli með þeim hætti sem gert var, þ.e. fljótandi gengi sem réðist af markaðsgengi.

Það kemur mér verulega á óvart að fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Geir H. Haarde, skuli því segja, í viðtali í breska sjónvarpinu þann 12. febrúar sl., að hann telji að íslenska krónan dugi næstu ár, svo lengi sem umsvif bankakerfisins verði takmörkuð. Hann segir hins vegar að ef Íslendingar ætli að hasla sér völl á alþjóðafjármálamörkuðum að nýju verði þeir að taka upp nýjan gjaldmiðil. Hér talar einn helsti talsmaður þess að við færum þá vegferð sem við fórum með íslensku krónuna, að hafa hana á floti, óvarða eða svo gott sem, með sáralítinn gjaldeyrisvaraforða. Lagt var af stað í þá vegferð og nú er sagt að krónan dugi næstu árin svo lengi sem umsvif bankakerfisins verði takmörkuð, en eigi Íslendingar að hasla sér völl að nýju sem þjóð meðal þjóða þá dugi gjaldmiðillinn ekki. Í raun er hv. þm. Geir H. Haarde ekki að segja neitt annað en það að íslenska krónan dugi ekki nema lokur og gjaldeyrishömlur séu í landinu.

Sú er líka niðurstaða okkar, flutningsmanna þingsályktunartillögunnar, og því leggjum við hana fram og krefjumst þess að menn fari að skoða hlutina með hagsmuni íslensku þjóðarinnar til lengri tíma litið fyrir augum. Það liggur fyrir að erfitt verður fyrir Ísland, án stuðnings annarra þjóða, að ávinna sér traust eftir það efnahagshrun sem varð í byrjun október þegar þrír stærstu bankar landsins voru þjóðnýttir og gjaldmiðillinn fór í frjálst fall — var nú reyndar kominn í það nokkru áður. Seðlabanki Íslands er trausti rúinn og hætt er við, jafnvel þó að skipt verði þar um æðstu stjórnendur, að hann verði það áfram.

Ég tel að alvarlegasti hluturinn í þessu, og raunar stærsti glæpurinn sem framinn var — það sem olli því að við lentum í því efnahagshruni sem varð — hafi verið sú tilraun sem gerð var með fljótandi gengi. Ábyrgðarmennirnir eru fyrst og fremst formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem markaði þessa stefnu í forsætisráðherratíð sinni, og sporgöngumenn hans, sem höfðu ekki undan að halda ráðstefnur og leiða hingað aðkeypta sérfræðinga til að mæra það kerfi sem við bjuggum við.

En þá er spurningin þessi: Var nokkurn tíma nokkur vitræn glóra í því að reyna að halda uppi þessum gjaldmiðli, þ.e. flotkrónu, á minnsta myntsvæðinu? Fyrrum fjármálaráðherra El Salvadors, einn helsti ráðgjafi Alþjóðabankans, Manuel Hinz, sem hingað hefur komið — og hefur víða komið að málum þar sem vandamál hafa komið upp í efnahagslífinu — hefur skrifað mjög góða bók sem heitir Að leika matador við djöfulinn. Það væri út af fyrir sig vert fyrir þingmenn á þjóðþingi Íslendinga að lesa þá bók (SKK: Nei, nei.) — þá vissi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að flokksmenn hans voru í ríkisstjórnartíð sinni, undir forustu núverandi formanns bankaráðs Seðlabankans, í raun með fljótandi gengi með þeim hætti að verið var að leika matador við djöfulinn, með þeirri gjaldmiðilsstefnu sem rekin var. Lýsingin sem Manuel Hinz setur fram í bók sinni er í raun lýsing á því með hvaða hætti hægt er að stefna í efnahagshrun eins og gert var hér á landi.

Eina stjórntækið sem Seðlabankinn hafði til að koma í veg fyrir fall krónunnar var að selja erlenda gjaldmiðla, þ.e. að fórna gjaldeyrisvarasjóðnum á markaði. Vandamálið við það að einhver þrýstingur komi á lítinn gjaldmiðil, eins og hér var um að ræða, er að þá þurrkast gjaldeyrisforðinn út á skömmum tíma. Seðlabankinn hafði þá engin önnur úrræði en þau að láta gjaldmiðilinn fara í frjálst fall og sú hætta var fyrir séð og við henni var ítrekað varað. Það var m.a. þetta sem gerðist.

Með hvaða hætti getum við komið í veg fyrir að slíkur þrýstingur skapist? Það er með því að hafa gríðarlega stóran og mikinn gjaldeyrisvaraforða. Það að hafa mikið af dauðum peningum kostar vexti, það kostar peninga, þannig að það er mjög dýr ráðstöfun að hafa gjaldmiðilsmálin með þeim hætti sem um er að ræða.

Kosturinn við að taka upp fjölþjóðlega mynt — og ég endurtek að þar er það fyrst og fremst spurning um að gera það sem er heppilegast fyrir íslensku þjóðina — við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar viljum kanna möguleikana á því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. Norðurlandamynt eins og norsku krónuna. Fyrir því eru ákveðin rök, þ.e. við erum í EES-samstarfinu utan Evrópusambandsins og með því, ef vilji er fyrir hendi, er hægt að taka upp slíkt samstarf með tiltölulega skömmum fyrirvara. Við stöndum með þeim möguleika og hæstv. fjármálaráðherra hefur þegar lýst því yfir að hann hafi áhuga á að skoða hvort sú leið sé fær, hefur átt samstarf og samtal um það atriði við kollega sinn í Noregi sem tók í sjálfu sér þokkalega undir það. Við gerum það að tillögu okkar að þessi leið verði athuguð sem allra best.

Spurningin er líka þessi: Ef þessi leið reynist ekki fær, sem verður að kanna, verðum við að leita annarra leiða. Meðal annars er talað um að taka upp evru sem gjaldmiðil með eða án sambands við Evrópusambandið. Það liggur fyrir að við getum tekið upp evru. Það þýðir að við þurfum að hafa nægilega mynt til staðar til að evran geti verið okkar mynt en það mundi þá væntanlega verða í fullri andstöðu við Evrópusambandið, alla vega til að byrja með eins og Svartfellingar lentu raunar í þegar þeir tóku upp evru einhliða.

Kostirnir eru þeir að með því að hafa fjölþjóðlegan gjaldmiðil þá eru þeir sem eiga viðskipti við okkur — þá lægi það í fyrsta lagi fyrir hver skuldabyrði okkar væri miðað við landsframleiðslu og það lægi líka fyrir að þeir sem ættu inni eignir þyrftu ekki að óttast að verulegar breytingar yrðu þar á varðandi gjaldmiðilinn og margt fleira mætti taka til. Það hefur því verulega þýðingu upp á það að byggja upp trúverðugleika íslensku þjóðarinnar og íslenska efnahagskerfisins að við búum við gjaldmiðil sem hægt er að treysta. Það hefur líka þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf að búa við gjaldmiðil sem hoppar ekki og skoppar upp eða niður og aldrei er hægt að treysta með hvaða hætti verður.

Það lá fyrir fyrir um tveimur árum að íslenska krónan væri allt of hátt skráð. Miðað við allar kennitölur í umhverfinu mátti sjá að svo gæti ekki haldið áfram. Þessar kennitölur voru m.a. þær að viðskiptahalli var gríðarlegur og hafði verið um árabil. Það lá ljóst fyrir að erlendar vörur voru á óeðlilega lágu verði miðað við samkeppnisvörur innan lands sem gerði samkeppnisiðnaði gríðarlega erfitt fyrir. Þrátt fyrir að allar þessar kennitölur lægju fyrir um árabil var samt haldið áfram lengra og lengra út í fenið þangað til gjaldmiðillinn sökk endanlega af því að lengra varð ekki komist. Þetta þýddi það m.a. að hinir svokölluðu útrásarvíkingar gátu fjárfest með þeim hætti sem þeir gerðu erlendis, þ.e. keypt erlendan gjaldmiðil á þeirri útsölu sem var hér miðað við of hátt skráð gengi íslensku krónunnar. Ég verð að segja að mér finnst þeir sem hafa haldið um stjórn gjaldeyris- og gjaldmiðilsmála undanfarinn áratug hjá íslensku þjóðinni hafa sýnt af sér, svo maður taki ekki dýpra í árinni, vítavert eða stórkostlegt gáleysi þrátt fyrir ábendingar um það hvað skyldi gera og að hverju stefndi. Engin þjóð hefur búið við eins stórkostlegan viðskiptahalla um árabil eins og Íslendingar gerðu.

Bandarískir hagfræðingar vöruðu við því hvað viðskiptahallinn þar í landi væri gríðarlegur og bentu á að við því þyrfti að bregðast þó að hann væri ekki nema þriðjungur af því, miðað við þjóðarframleiðslu, sem við bjuggum við. Í nýjasta hefti ritsins The Economist er grein sem heitir „Reykjavík on Liffey“ en það mun vera áin sem Dublin stendur við. Þar er spurt: Hver er munurinn á Írlandi og Íslandi? Sagt er að það sé einn stafur og sex mánuðir en Peter Sunderland, sem er fulltrúi Írlands hjá Evrópusambandinu, heldur því fram að það sé annað, það séu í raun fjórir stafir, að um það sé að ræða að Írar hafi evruna sem gjaldmiðil en Íslendingar ekki. Þess vegna hafi Írar losnað við þau vandkvæði sem Íslendingar óhjákvæmilega hlutu að lenda í.

Með sama hætti er fjallað um það, í Financial Times frá 9. febrúar, að forgangsatriði varðandi íslensk efnahagsmál hljóti að vera umbætur í peningamálum þar sem Íslendingar verði, til að öðlast trúverðugleika, að hafa gjaldmiðil sem þjónar tilgangi sínu og sé viðskiptahæfur annars staðar en á Íslandi. Afleiðingarnar sem það hefur fyrir fólkið í landinu að búa við þessa stefnu — og það hefur verið dæmt til þess um árabil — eru vaxtaokur og verðtrygging. Vegna þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið varð efnahagshrun og bankakerfið hrundi og þar sem ekki var hægt að treysta á gjaldmiðilinn, sem var ónýtur, var búin til aukahækja fyrir ónýtan gjaldmiðil sem hét verðtrygging. Það eru verðtryggingin og síðan myntkörfulánin, sem boðið var upp á þegar allt var að fara hér niður, sem eru nú að sliga heimilin sem viðbótarálag svo að til ófarnaðar horfir. (Forseti hringir.) Ég skora því á þingheim að samþykkja þingsályktunartillögu okkar og vonast til að henni verði vísað til hv. viðskiptanefndar að lokinni umræðu.