136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:02]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sömu háskólagráðu í peningafræðum og hv. þm. Pétur Blöndal því að ég er bara lögfræðingur, en það hefur gefist vel eða misjafnlega vel, en sums staðar mjög vel — þó kannski ekki endilega hér á landi — við stjórnun peningamála.

Varðandi það sem hann sagði um viðskiptahalla í Bandaríkjunum og á Íslandi þá gilda að sjálfsögðu sömu hagfræðilögmál. Ég gat ómögulega skilið hvaða erindi þessar hugleiðingar þingmannsins eiga í þessu sambandi. Hagfræðingar í Bandaríkjunum bentu ítrekað á hvaða hættuspil Bush-stjórnin stundaði með þeim viðskiptahalla sem um var að ræða. Í dag eru allir sammála um að svo hafi verið. Nákvæmlega sömu lögmál voru stimpluð inn sem afleiðing af þeirri ólánsstefnu sem Bush-stjórnin fylgdi í Bandaríkjunum og Davíðsstjórnin fylgdi hér á Íslandi. Það var einfaldlega staðreyndin í málinu.

Varðandi það með hvaða hætti menn gátu leikið á gjaldmiðilinn. Að sjálfsögðu gátu menn gert það. Hv. þm. Pétur Blöndal veit jafn vel og ég að stóru aðilarnir á íslenska gjaldmiðilsmarkaðnum gátu ráðið gengi innan dagsins með stórum viðskiptum fram og til baka. Þeir gátu tekið til sín óeðlilegan og að mínu viti ólögmætan hagnað.