136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka 1. flutningsmanni, hv. þingmanni Jóni Magnússyni, fyrir framsöguræðuna með þessu máli og tel að hér sé að mörgu leyti athyglisverð tillaga á ferðinni. Hún lætur lítið yfir sér og í henni er einungis gert ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að kanna möguleika á því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. norsku krónuna í samráði og samstarfi við norsk stjórnvöld, eins og hér segir.

Ég held að okkur sé öllum ljóst að í kjölfar efnahagshrunsins, bankahrunsins og hruns efnahagslífsins í haust, hafi aðstæður í gjaldmiðilsmálum okkar breyst gríðarlega mikið og hratt og ég hygg að ekki sé ofmælt að við flest lítum gjaldmiðilsmálin og umræðuna um þau öðrum augum en fyrir fáum mánuðum síðan. Mér finnst óhjákvæmilegt að við sem störfum í stjórnmálum ræðum kosti og galla þess fyrirkomulags sem við höfum búið við í gjaldmiðilsmálum undanfarin ár með íslensku krónuna og peningamálastefnu sem hefur verið mótuð og verðbólgumarkmið sem sett hafa verið og Seðlabankinn hefur haft umsjón með. Þau markmið hafa ekki náðst um langt skeið svo ekki sé meira sagt. Þannig má vel halda því fram að gengisstefnan hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt og þó ekki væri nema þess vegna væri eðlilegt að taka gjaldmiðilsmál, gengisstefnu og peningamálastefnu til endurmats, án þess að þar með sé endilega sagt að menn komist að niðurstöðu og það eigi að breyta einhverju. En sjálfsagt er að þessi mál séu tekin til endurskoðunar.

Mér finnst því eðlilegt að þessi tillaga fái umfjöllun á vettvangi viðskiptanefndar, eins og hér er lagt til, og menn kalli til þá sérfræðinga sem gerst þekkja í þessum málum. Ekki er langt síðan að í Morgunblaðinu birtist ítarleg grein eftir mjög marga hagfræðinga sem skrifuðu saman um þá hugmynd að taka einhliða upp annan gjaldmiðil og mæltu mjög gegn slíkri leið. En það eru aðrir hagspekingar, hagfræðingar, sem hafa þvert á móti mælt með því að Íslendingar tækju einhliða upp aðra mynt og hafa bent á ýmsar aðrar þjóðir sem fyrirmyndir í því og það gerði hv. framsögumaður líka og nefndi Svartfjallaland í því samhengi. Þar er ólíku saman að jafna vegna þess að Svartfjallaland var á sínum tíma með þýska markið og tók upp evru þegar það var lagt niður, þannig að það var ekki sambærileg staða og á Íslandi.

Ég vil stuttlega segja að þessi mál hafa verið talsvert til umræðu á vettvangi flokks míns. Á vettvangi flokksráðs Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum við talsvert rætt efnahags- og atvinnumál í víðu samhengi, en þeim tengjast að sjálfsögðu umræður um gjaldmiðilsmál. Það sem við höfum sagt í því efni er að við teljum mikilvægt að reyna að komast að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands, sem er væntanlega verkefni næstu mánaða og missira. Ég tel að á fyrri hluta næsta kjörtímabils, sem hefst í vor, sé mikilvægt að við komumst að einhvers konar niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands. Aðdragandinn að því er þá væntanlega að allir raunhæfir kostir í því samhengi verði skoðaðir sem og líkleg framtíðarþróun gjaldmiðla og gjaldeyrismála í heiminum, en þau mál eru í mikilli deiglu um þessar mundir. Ekki er sjálfgefið að allir þeir gjaldmiðlar sem eru nothæfir í dag verði það um alla framtíð, jafnvel ekki þeir sem standa okkur nálægt. Mikil gerjun er í þessum málum og deigla og þess vegna eðlilegt að þau séu skoðuð.

Ég held að kannski megi segja að fjórar meginleiðir séu hugsanlegar fyrir framtíðargjaldmiðilsmál okkar og ég nefni þær hér. Í fyrsta lagi breytt fyrirkomulag íslensks gjaldmiðils, þ.e. krónan á grunni nýrrar peningamálastefnu þar sem Seðlabankanum yrðu sett a.m.k. tvö samhliða og jafngild markmið, annars vegar um gengisstöðugleika og hins vegar um verðstöðugleika.

Önnur leið væri einhliða upptaka á erlendum gjaldmiðli, t.d. evru eða norskri krónu eða bandaríkjadal, sumir hafa nefnt svissneska franka og einhverjir japanskt jen. En þetta er, má segja, fræðilega mögulegt með kostum og göllum.

Í þriðja lagi vil ég nefna efnahags- og gjaldmiðlasamstarf við eitt eða fleiri ríki, eitt eða fleiri Norðurlandanna. Í máli framsögumanns var norska krónan nefnd og samstarf við Noreg. Það er rétt sem fram kom í máli framsögumanns að hæstv. núverandi fjármálaráðherra hefur rætt þessi mál við starfsfélaga sinn í Noregi. Auðvitað eru bæði kostir og gallar við þá leið og hún getur verið flókin en hún er engu að síður einn þeirra möguleika sem við eigum hiklaust að horfa til og skoða kosti og galla á.

Í fjórða lagi væri upptaka evru sem væri augljóslega að undangengnum breyttum tengslum Íslands við Evrópusambandið því að forsenda þess, held ég að megi segja, að við getum tekið upp evru, a.m.k. í góðu, er að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og þátttakandi í evrópska myntbandalaginu eða myntsamstarfinu.

Þetta eru í grófum dráttum fjórar leiðir sem ég tel mögulegar í stöðunni og án þess að ætla að taka neina sérstaka afstöðu til þeirra á þessu stigi málsins held ég að þetta eigi einmitt að verða verkefni næstu ríkisstjórnar. Úr því að kosningar verða í apríl á það að verða eitt af viðfangsefnum næstu ríkisstjórnar á fyrri hluta næsta kjörtímabils að skoða með opnum hug allar þessar leiðir, fara yfir kosti þeirra og galla og efna síðan til opinnar, gagnsærrar og lýðræðislegrar umræðu í samfélaginu, því að þetta er mikið samfélagsmál sem varðar okkur öll. Íslendingar hafa almennt áreiðanlega skoðanir á því hvernig þeir vilja koma gjaldmiðilsmálum sínum fyrir til framtíðar þannig að ég held að fyrsta stigið sé að vinna ítarlega greiningu á kostum og göllum, fara síðan með þá vinnu út í almenna samfélagsumræðu og að stjórnvöld geti í framhaldinu mótað sér stefnu til framtíðar og vonandi tekst um það góð samstaða.

Ég vil sem sagt á þessu stigi ekki tjá mig neitt sérstaklega um hvaða leiðir mér hugnast best af þessu vegna þess að ég tel einfaldlega að rannsóknarvinnu, undirbúningsvinnu, skorti til þess að hægt sé að taka afstöðu. Ég held að tillagan sé í sjálfu sér góðra gjalda verð og vona að hún fái málefnalega umfjöllun á vettvangi viðskiptanefndar.