136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:16]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Nú eru liðnir meira en fjórir mánuðir frá því að bankarnir fóru í þrot. Við höfum ekkert látið reyna á í samningum við erlendar þjóðir varðandi breytingar á gjaldmiðlinum, að taka upp nýjan gjaldmiðil hvort sem það er norsk króna, dollari eða evra.

Það er ljóst að ef við ætlum að taka upp evru þá verðum við að gera það einhliða. Við náum því ekki í sátt við Evrópusambandið. Það er spurning með dollara, hvort hægt væri að gera það einhliða í einhvers konar samstarfi við Bandaríkjamenn og það er auðvitað fáránlegt að hafa ekki látið reyna á það strax eftir bankahrunið hjá okkur hvort það væri flötur á því að ná einhverju samstarfi við Norðmenn um gjaldmiðilsmál.

Við sitjum uppi í dag með gjaldeyrishöft sem eru þess eðlis að ekki er við þau unandi og á meðan við erum með þau þurfum við ekki að reikna með því að hafa eðlileg viðskipti við önnur lönd. Við gerðum tilraun með fljótandi gengi í sjö ár sem gafst okkur illa og nánast setti okkur í þann farveg sem við erum í núna með Ísland nánast gjaldþrota og þess vegna er ekkert óeðlilegt að segja að ýmislegt eigum við sameiginlegt með Norðmönnum. Bæði er það fiskurinn og hugsanlega olía í framtíðinni. Gengi norsku krónunnar hefur því ákveðna samsvörun við það sem við búum við. Við erum með álíka stóran sjávarútveg, Íslendingar og Norðmenn, þó hann vegi minna hjá Norðmönnum en okkur og hugsanlega erum við nú að komast inn í einhvers konar olíuleit að minnsta kosti til að byrja með. Því er líklegast að það land sem stendur okkur næst sé Noregur hvað varðar afkomu og gengisbreytingar með tilliti til þess sem þjóðin er að framleiða.

Það er reyndar sorglegt til þess að vita að eftir fjóra mánuði erum við að tala hér fyrir frumvarpi sem hefði átt að flytja strax í byrjun október eða ekki seinna en um miðjan október þar sem menn könnuðu og létu reyna á þessa hluti, hvort hægt væri að taka upp norska krónu í samstarfi við Norðmenn eða dollara eða hugsanlega evru.

Við erum skólabókardæmi og sennilega verður íslensk hagstjórn kennd út um allan heim í framtíðinni í þeim tilgangi að vara menn við að stýra sínum málum með sama hætti og íslenska þjóðin gerði á árunum 2000–2008 því það hafi verið vitlausasta efnahagsstjórn sem þekktist á byggðu bóli kannski fyrir utan stjórnina hjá Mugabe í Afríku.

En við stöndum frammi fyrir því að allir okkar ágætu hagfræðingar og stjórnmálamenn sem hafa komið að stjórn efnahagsmála, svo maður segi það nú bara á íslensku, hafa skitið upp á bak á sér. En það má nú víst ekki segja svona.

(Forseti (KÓ): Forseti vill biðja þingmanninn um að gæta orða sinna.)

Ég biðst afsökunar á því að hafa sagt þetta en þetta er það sem mér fannst nauðsynlegt að segja.

Afkoma heimilanna í landinu er með þeim hætti að 40% af heimilum landsins verða væntanlega gjaldþrota á næstu dögum og mánuðum, vikum eða mánuðum, jafnvel 70% af fyrirtækjum í landinu. Það er svo sorglegt að menn sem þykjast vera menntaðir og hafa einhverja menntun skuli hafa tekið þátt í þessu vitandi vits og horfa upp á þetta, fengið aðvaranir frá mönnum alls staðar að úr heiminum um að þetta gengi ekki upp það sem við værum að gera og við sitjum uppi með að þjóðin er nánast gjaldþrota. Húsmæður sem hafa tekið þátt í því að ala upp börnin sín og haft það gildi að eyða ekki umfram efni, þær hefðu stjórnað þessu miklu betur en hagfræðingastóðið okkar sem hefur leitt okkur í þessa ógæfu ásamt pólitíkusunum.

Við hefðum átt að snúa okkur strax til Rússa, Kínverja og annarra aðila, annarra landa, jafnvel Indlands um fyrirgreiðslu og samstarf til dæmis til að tryggja okkur eldsneyti, olíu og bensín og gera við þá samninga inn í framtíðina og til að tryggja það að borga þetta eldsneyti sem við hefðum sérstaklega þurft að fá frá Rússum, þ.e. olíu og bensín hefðum við átt að borga með fiski.

En allt frá því að bankarnir fóru á hausinn þá hefur þetta verið á snigilshraða eða hægar heldur en sniglar fara, öll vinnubrögð í sambandi við endurreisnina og uppbygginguna sem átti að koma og allt það sem er verið að gera til að bjarga heimilunum í landinu, til að bjarga fyrirtækjunum, það er ekkert farið að virka eitt eða neitt. Og bankarnir nýju eru ekki farnir að virka eitt eða neitt heldur. Það er engar fyrirgreiðslu fyrir fyrirtæki eða einstaklinga að fá í bankakerfinu. Hún er í algeru lágmarki. Þess vegna segi ég enn og aftur að þetta frumvarp sem gekk út á að kanna möguleika á að ná samstarfi við aðrar þjóðir um að taka upp annan gjaldmiðil er mjög tímabært og við hefðum þurft að fara miklu fyrr í könnunarviðræður strax eftir bankahrunið. En við bárum ekki gæfu til að gera það enda var fyrrverandi ríkisstjórn ótrúlega ömurleg í þessum vinnubrögðum sínum við þessar aðstæður.

En það má segja að aldrei sé of seint að koma með svona frumvarp og ef það næðist að fara í samstarf við aðra aðila um nýjan gjaldmiðil þá væri það skref í rétta átt og vonandi munum við gera það því við getum ekki búið við íslensku krónuna og verðum að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Ég legg til að þetta frumvarp fái jákvæð viðbrögð frá þingmönnum og að eitthvað verði gert með það þannig að við getum nýtt okkur þá möguleika að semja við aðrar þjóðir um annan gjaldmiðil.