136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. (Gripið fram í: Er þetta andsvar?) Nei, þetta er ekki andsvar. Þetta er ræða. (Gripið fram í.) Við ræðum hér frumvarp um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan gjaldmiðilsmála þar sem lagt er til að tekin verði upp ný mynt. Mér finnst þetta afskaplega merkt mál og ég vil endilega að hv. viðskiptanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar taki það til alvarlegrar umfjöllunar. Reyndar þyrfti að laga textann dálítið vegna þess að hann gefur of mikil skilaboð um að að taka eigi upp norska krónu eða evru. En ég sé miklu fleiri kosti eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni. Hv. nefnd þarf því að sjálfsögðu að breyta þessu.

Þó eru ýmsir kostir við krónuna sem ekki eru nefndir í tillögunni. Í fyrsta lagi sá að með því að láta krónuna breytast þá erum við að lækka laun í landinu og mætum þannig miklu betur þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir. Þannig lagast staða útflutnings mjög mikið þannig að flest útflutningsfyrirtæki ættu að blómstra núna, herra forseti, þau ættu að blómstra þó að reikningarnir segi kannski eitthvað annað vegna þess ef maður lítur á starfsemi þeirra með erlendum augum þá er það eina sem hefur breyst — skuldirnar hafa ekki breyst ef þær eru erlendar, tekjurnar hafa ekki breyst ef þær eru erlendar — það sem hefur breyst er innlendi kostnaðurinn sem hefur lækkað mjög verulega. (Gripið fram í: Það er bara allt í þessu fína lagi.) Gagnvart útflutningsfyrirtækjunum er nefnilega allt í fína lagi þó að bókhaldið kannski sýni annað vegna þess að bókhaldið færir auðvitað erlendu skuldirnar upp á einu ári svo mikið að tekjurnar sem koma á næstu árum og eiga að standa undir skuldunum eru ekki sýndar. Bókhaldið er sýnt óþarflega svartsýnt og þess vegna hefur nú verið lagt til, hér á Alþingi meðal annars, að fyrirtæki geti fært bókhald sitt í erlendri mynt og það er búið að samþykkja það sem lög hjá hæstv. fyrri ríkisstjórn.

Ef við hefðum verið með erlenda mynt undanfarin fjögur, fimm ár með þeim lágu vöxtum sem þar voru hvað halda menn að hefði gerst? Þá er ég ansi hræddur um að menn væru ekki að glíma við skuldir vegna tveggja jeppa á heimili heldur þriggja. Og skuldsetningin væri enn þá meiri. Það sem er að er ákveðinn skortur á vilja til að spara og ákveðinn mikill vilji til að eyða, eyðslugleði segja sumir, eyðslugræðgi segja aðrir. Ég hugsa að fáar þjóðir í Evrópu mundu kaupa jeppa með 90% láni og borga 25 eða 30% vexti. Ég hugsa að það sé bara óhugsandi. Það þarf að breyta viðhorfinu ef við ætlum að taka upp erlenda mynt vegna þess að þá verður ekki lengur hægt að laga stöðuna með því að fella gengið. Þetta vantar líka inn í frumvarpið að ræða, þ.e. að til dæmis Írar eru núna í miklum vanda af því þeir eru með evru. Þeir geta ekki lækkað gengið til þess að laga stöðuna hjá sér sem er mjög alvarleg. Það hefur verið bent á að þetta kunni hugsanlega að valda þeim miklum vandræðum á meðan að hjá Bretum lækkar gengið á pundinu til þess að mæta stöðunni.

Ókostir við krónuna eru sveiflur og agaleysi, herra forseti, einmitt það sem ég var að nefna. Fólk hefur alltaf sagt. „Það reddast. Þetta reddast einhvern veginn. Tökum bara lán, meiri lán, enn þá meiri lán.“ Og menn átta sig ekki á því að í hvert skipti sem þeir taka lán þá eru þeir í rauninni að ráðstafa framtíðartekjum sínum og þær eru takmarkaðar. Það eru ekki nema ákveðnar tekjur sem menn hafa út ævina og hver lántaka tekur af þeim tekjum. Það geta menn ekki gert allt of lengi eða allt of oft.

Peningamálastefna Seðlabankans. Ég hef margoft gagnrýnt hana í gegnum tíðina. Við hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn bentum aftur og aftur á að það væri eitthvað mikið að þegar jöklabréfin byrjuðu að streyma til landsins, gengið styrktist og erlendar vörur lækkuðu í verði. Aðgerðir sem voru ætlaðar til þess að minnka neyslu juku í rauninni neysluna. Það var eitthvað mikið að peningamálastefnunni. Þetta áttum við að sjálfsögðu að sjá strax. Ég benti á það í hv. efnahags- og skattanefnd — þó ég vilji kannski ekki endilega fara í hóp þeirra sem hafa rétt fyrir sér eftir á því þeir eru nú æðimargir — að þá hélt ég sérstakan fund með Seðlabankanum einmitt um jöklabréfin til þess að átta okkur á því hvað væri að gerast. Það var ekki reiknað með þeim inni í dæminu hjá þeim. Þau eru aðalvandinn núna. Þau er sá vandi sem gerir að verkum að við getum ekki tekið upp erlenda mynt nema eitthvað annað gerist vegna þess að ef við tækjum upp erlenda mynt núna bara í dag og við værum búin að leysa vandamál varðandi verðtrygginguna og annað slíkt sem eru geysileg þá mundu allir eigendur jöklabréfanna — sem eru útlendingar, einhverjir tannlæknar eða arkitektar á Ítalíu eða Spáni sem hafa í rauninni engin tengsl við Ísland nema þeir tóku lán í Japan til þess að fjárfesta á Íslandi, tóku lán með lágum vöxtum, 4%, og fjárfestu á Íslandi með 12% vöxtum með innlánum eða bankabréfum — þeir mundu að sjálfsögðu taka dollarana sína eða evruna eða hvaða mynt sem við tækjum upp, taka hana strax til baka og flytja hana út. Þá þyrftum við að eiga fyrir þessum 200–300 milljörðum sem eru í þessum jöklabréfum. Þetta er vandinn. Þess vegna getum við þetta ekki nema það sé búið að leysa þennan vanda fyrst. (Gripið fram í.) Það væri hugsanlega hægt að gera og það er, skilst mér, verið að reyna að ná samningum við þessa aðila. En ætli það séu ekki tugir þúsunda sem eiga þessi bréf og þeir hafa engin tengsl við Ísland í sjálfu sér. Þeir eiga enga reikninga hérna eða neitt slíkt. Þeir bara eiga hérna eign í krónum (Gripið fram í: ... eru fjórtán.) sem þeir vilja ná út. (Gripið fram í.) Ha! (EyH: Eru fjórtán sem eiga jöklabréf?) Það eru fjórtán aðilar sem gáfu út jöklabréf, það er meira að segja austurríska ríkið. En þeir seldu þau svo áfram til fjölda smærri aðila sem fjárfestu og fjárfestarnir taka áhættu af gengisfallinu en hinir taka áhættuna ef bréfin tapast eins og til dæmis þeir sem fjárfestu í bankabréfum sem hreinlega töpuðust í hruninu, sem eitthvað var um.

Verðtrygginguna þarf líka að leysa ef við tökum upp nýja mynt. Það er ekki hægt að vera með samninga um verðtryggðar evrur. Það er ekki hægt. Þá er það orðið mjög undarlegt vegna þess að verðtryggingin er í rauninni önnur mynt í landinu. En það er ekki hægt að leysa verðtrygginguna svona allt í einu vegna þess að þetta eru einkasamningar. Það verður þá að gera það þannig að nýir samningar megi ekki vera verðtryggðir. Ég hef nú lagt það til að um leið og verðbólgan hefur lækkað sem verður væntanlega í haust, þ.e. að verðbólgan verði komin í skikkanlegt horf, eins og 3–4%, að þá geta menn afnumið verðtrygginguna á nýjum samningum. Og svo þarf að bíða eftir því að það deyi út eða þeir samningar verði keyptir upp eða eitthvað slíkt.

Ég tel að menn þurfi að skoða þessi mál mjög nákvæmlega en þeir þurfa líka á átta sig á þeim hömlum og þeim aga sem þeir eru að leggja á sig. Mér líst eiginlega best á að taka upp norska krónu (Gripið fram í.) vegna þess að bæði Norðmenn og Íslendingar eru fiskframleiðendur, þ.e. matvælaframleiðendur og orkuframleiðendur, Íslendingar með raforkuna sína og hugsanlega olíu — ég veit það ekki — og Norðmenn með olíuna sína og eitthvað af raforku. Að mörgu leyti fellur þetta því saman. Nú veit maður ekki hvort hægt sé að gera samning við norska seðlabankann um að hann dekki nítjánfalt það sem Íslendingar dekka á móti einum eða eitthvað svoleiðis og við fengjum kannski einn mann í stjórn seðlabanka Noregs sem hefði mjög lítið atkvæðavægi. En þetta eru allt saman hlutir sem þarf að semja um.

Svo getum við líka tekið upp nýja mynt einhliða. (Gripið fram í.) Það á líka við um dollara og fleiri myntir sem við gætum hugsanlega tekið upp. En ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin, væntanlega eftir kosningar því þetta gerist ekki allt einn, tveir og þrír — ég er á móti því að gera svona ráðstafanir einn, tveir og þrír, því það þarf að liggja vel yfir þessu og það er líka ekki hægt vegna jöklabréfanna og verðtryggingarinnar. Ég held því að við þurfum að stefna á eitthvað slíkt.

Eins og ég gat um í upphafi þá legg ég til að tillögunni verði breytt í hv. viðskiptanefnd og hún samþykkt.