136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get að ýmsu leyti tekið undir málflutning Péturs H. Blöndals varðandi Icesave-reikningana og þau varnaðarorð sem hann hefur haft uppi um þær skuldbindingar sem við þyrftum að gangast undir í því sambandi og held að það sé mikilvægt að þær skuldbindingar séu meðal þess sem við ræðum við Evrópusambandið. Ég er þó hræddur um að við þurfum, hv. þingmaður, að líta örlítið meira í eigin barm þegar söfnun þessara innlánsreikninga í nálægum ríkjum á undanförnum missirum og árum er annars vegar en bara að kenna þar um vondum útlendingum. Ég held að það verði ekki fram hjá því litið að við sem vorum við stjórnvölinn, bæði ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, berum býsna mikla ábyrgð á þeirri starfsemi og því sem þar fór fram og getum ekki bara sakast þar við vonda útlendinga.

Ég held hins vegar að leiðin til lausnar á þeim málum og svo mörgum öðrum, ekki einfaldrar lausnar, ekki töfralausnar, heldur leiðin til þess að vinna sig út úr því skref fyrir skref á lengri tíma sé einmitt að fara í viðræður við Evrópusambandið. Eins og hv. þingmaður veit er auðvitað fordyri evrunnar EMR2, þ.e. þar sem myntir eru tengdar við evruna með bakstuðningi evrópska seðlabankans, því að það er algjörlega marklaust að tengja mynt annarri mynt ef ekki stendur á bak við það stór og öflugur seðlabanki. Ég held að hv. þingmaður viti býsna vel að það er auðvitað einn af þeim málefnalegu kostum sem til skoðunar hljóta að koma í peningamálastefnu þjóðarinnar til framtíðar.