136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það eru málefnaleg sjónarmið um ágalla á löggjöfinni sem sjálfsagt er að ræða við Evrópusambandið um leið og aðild við sambandið er rædd og önnur hagsmunamál þjóðarinnar enda eru það auðvitað gagnkvæmir hagsmunir að þau mál og aðild okkar að bandalaginu geti fengið farsælar málalyktir fyrir báða.

Hitt verð ég svo að segja að það er einfaldlega sannfæring mín að ef við mögulega getum eigum við Íslendingar að hætta að keppast sífellt eftir því að hafa undanþágur. Ég held að það sé kominn tími til að við verðum stór og öxlum þá ábyrgð og þær skyldur sem alþjóðlegu samstarfi fylgja. Það er auðvitað algjörlega marklaust að ætla að taka evru upp einhliða vegna þess að við getum tilkynnt það hér en við höfum ekkert vald til þess að prenta þá mynt og við höfum ekkert afl til þess að standa undir þeirri yfirlýsingu og við gætum aldrei borgað út innstæður úr fjármálastofnunum á Íslandi í evrum vegna þess að við eigum ekki þær evrur og vegna þess að við höfum komið okkur í þá stöðu að það er enginn í heiminum sem hefur áhuga á því að lána okkur þær evrur. Yfirlýsing okkar um einhliða upptöku á evru væri því bara marklaus yfirlýsing, við gætum allt eins lýst því yfir að við ætluðum að taka upp matadorpeninga vegna þess að sú einhliða upptaka mundi eftir sem áður lúta fullkomlega íslenskum reglum. Hér yrðu fullkomlega íslenskir vextir á þessum svokölluðu evrum og það yrði að vera sérstök íslensk löggjöf um gjaldeyrishöft á þessari miklu alþjóðlegu mynt sem héti þá íslenska evran.

Ég held þess vegna að það sé einfaldlega til þess að tefja fyrir okkur í því vandasama verkefni sem við eigum fyrir höndum að vera að reyna að hlaupa þetta út undan okkur hvort sem það er í norska krónu eða einhliða upptöku á dollar, heldur eigum við einfaldlega að sýna þá forustu fyrir þjóðinni að ganga til samninga við Evrópusambandið og sjá hvaða kostir bjóðast þar og leggja slíkan samning síðan auðvitað (Forseti hringir.) í dóm þjóðarinnar sem úrslitum ræður um það stóra mál eins og vera ber.