136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga sú sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að ríkisstjórninni verði falið að kanna möguleika á að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. norsku krónuna og þá í samstarfi og samráði við norsk stjórnvöld. Fyrst er það að segja að þegar kemur að því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt þá þarf að taka tillit til margra sjónarmiða og eitt er það hvernig slíkri tengingu er háttað. Aðalatriðið er að ef um er að ræða tengingu verður hún að vera það trúverðug og það sterk að hún haldi. Því miður er veraldarsagan og saga myntkerfa heimsins full af sögum um það þegar menn hafa reynt að tengja gjaldmiðil sinn við annan gjaldmiðil og síðan hefur sú tenging einfaldlega ekki staðist og niðurstaðan orðið sú að vandinn sem menn ætluðu sér að leysa hafi jafnvel magnast og orðið enn verri en sá vandi sem í upphafi var og menn reyndu að komust út úr, því miður.

Þingsályktunartillagan eða greinargerðin með henni fjallar ekki ítarlega um það hvernig slík tenging ætti nákvæmlega að eiga sér stað en það er lykilatriði í þessu máli og verður þá eitt af því sem íslensk stjórnvöld yrðu að skoða. Ég verð að segja eins og er að væri slík leið farin yrði það sennilega aldrei gert öðruvísi en að við tækjum einfaldlega upp norska krónu. Ég sé ekki fyrir mér að menn geti búið til það umhverfi sem mundi henta annars vegar íslenskum stjórnvöldum og hins vegar norskum stjórnvöldum eða að það stæðist yfir höfuð nokkra skoðun að menn tengdu þetta saman öðruvísi en að taka upp norska krónu.

Það hefur síðan sína galla og sína kosti. Hluti af styrk norsku krónunnar felst í olíuverðinu eða með öðrum orðum mætti kannski segja að norska krónan og gengi hennar eigi mikið undir verði á olíu. Sama gildir raunar um íslenskt efnahagslíf að olían hefur töluverð áhrif hér. Hún hefur m.a. þau áhrif að þegar verðið fer upp eykst útgerðarkostnaður og annar kostnaður í hagkerfinu þannig að það gengur þvert á, annars vegar græða Norðmenn á því að olían verði dýrari en við hins vegar töpum raunverulega á því.

Á móti kemur hitt reyndar, sem hjálpar hugmyndinni, að hækkandi olíuverð er merki um batnandi efnahag í heiminum, aukna eftirspurn og um leið og eftirspurnin er meiri þá verður líka aukin eftirspurn eftir bæði fiskafurðum okkar og áli. Það stendur a.m.k. með hugmyndinni. En ég verð að segja eins og er að ég mundi hafa alla fyrirvara á því að fara þessa leið, að menn færu a.m.k. ekki í þetta nema að mjög vel athuguðu máli og auðvitað gengur tillagan út á að menn skoði það vel. Því þótt margt sé ágætt hjá frændum okkar Norðmönnum bendir ýmislegt til þess að erfitt geti verið að láta íslenska efnahagslífið sveiflast eða haga sér með sama hætti og hið norska.

Vandinn við að taka upp aðra mynt en sína eigin felst auðvitað í því að eitt af meginhlutverkum myntarinnar er að endurspegla viðkomandi hagkerfi. Það er mjög erfitt ef menn eru í þeirri stöðu að myntin er algerlega úr tengslum við hagkerfi viðkomandi lands. Menn sjá þennan vanda núna, t.d. á Írlandi, á Spáni og víðar í Evrópu þar sem öll hagþróun gengur gegn því sem raunverulega er að gerast með evrópsku myntina og veldur þar af leiðandi gríðarlegum vandamálum í þeim hagkerfum. Sérstaklega á þetta við á Írlandi.

Það verður að segjast og viðurkennast að stjórn peningamála á undanförnum árum hefur verið með þeim hætti að ástæða er fyrir okkur að velta þessum málum upp. Ég hef lengi verið í hópi þeirra sem hafa gagnrýnt þá peningamálastefnu sem rekin hefur verið hér. Ég hef talið að ekki væri hægt að búa til þann mikla vaxtamun sem var á milli Íslands og umheimsins án þess að af því yrði stórkostlegur skaði fyrir íslenskt efnahagslíf. Seðlabankanum til vorkunnar má benda á og segja, sem ég held að gild rök séu fyrir, að á sama tíma og draga hefði þurft úr ríkisútgjöldum þá jukum við þau alveg gríðarlega og þar með varð vandi Seðlabankans mun meiri en ella hefði orðið. Það breytir ekki því að ég held að þeir dagar séu liðnir og muni ekki koma aftur að möguleikar séu á því að reka sjálfstæða peningamálastefnu í þeirri mynd að menn geti stillt vaxtastigið hér af án þess að hafa það í einhverju samhengi við vaxtastigið í löndunum í kringum okkur. Það er þá eðlilegt að við spyrjum okkur að því: Hvernig ætlum við að leysa þetta í framhaldinu?

Mér finnst svolítið merkilegt að við séum að ræða þessa þingsályktunartillögu á sama tíma og til meðferðar er í einni af nefndum þingsins frumvarp um breytingar á stjórnkerfi Seðlabankans. Hér er leitast við að reyna að koma fram með hugmyndir um breytta skipan peningamálastjórnar og ég tel að það skipti miklu máli að við ræðum það en að því er varðar hugmyndir um breytt stjórnskipulag bankans, þá hef ég ekki séð nokkra hugmynd um að það tengist einhverjum breytingum á skipan peningamála né neinu slíku. Ég sakna þess og það hefði verið gott að þessir hlutir færu saman, þeir ættu að gera það. Því miður virðist einhverra hluta vegna liggja meira á að ná niðurstöðu varðandi stjórnskipun eða skipulag Seðlabankans án þess að maður sjái til botns í því hverju menn eru nákvæmlega að reyna að breyta þar til að styrkja peningamálastefnu sem þar á að stunda.

Aðalatriðið er að mínu mati að fram undan er tími þar sem við munum búa við íslenska krónu. Það er engin undankoma frá því og raunverulega er eina vonin sem við höfum til að ná að rétta hagkerfið nægilega hratt af að við búum við gjaldmiðil sem endurspeglar stöðu okkar. Ekki er langt síðan að það gerðist á Íslandi að dregið var úr fiskafla um nærri þriðjung og sama daginn og það var tilkynnt hækkaði gengi íslensku krónunnar sem sýndi manni að peningamálastefnan, eins og hún var rekin, var komin úr öllum takti við hagkerfið sjálft. Núna er það auðvitað svo að hið lága gengi íslensku krónunnar veitir gríðarlega viðspyrnu fyrir sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar sem gerir það að verkum að sjávarútvegurinn stendur það af sér að verð á afurðum á okkar helstu mörkuðum hefur farið mjög lækkandi á undanförnum mánuðum, svo mjög að ef við værum t.d. með evru eða einhverja aðra mynt þá væri einfaldlega allur útflutningsvegurinn okkar farinn á hausinn. Það er ekki flókið. Ég tel því að það sé heilmikill möguleiki í því fólginn fyrir okkur að hafa okkar mynt við þessar aðstæður.

Það er svo annað þegar horft er til lengri tíma. Við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að halda á málum þegar til lengri tíma er horft og þess vegna fagna ég framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og ég lít á hana sem part af þeirri vinnu. Ég tel reyndar að hugmyndir um einhliða upptöku evrunnar sem gjaldmiðils án samráðs við Evrópusambandið séu pólitískt nokkuð varhugaverðar vegna þess að ég tel að vera okkar í EES-samstarfinu geri það að verkum að það yrði mjög erfitt að klára það að taka upp evruna án þess að það væri í samráði við ESB. Ég tel reyndar að til þess séu efnisleg rök að Evrópusambandið ætti að heimila það og hef skýrt frá þeirri skoðun minni annars staðar. En það var alveg augljóst t.d. í ferð Evrópunefndar til Brussel fyrir nokkrum mánuðum að í það minnsta í hópi embættismanna var lítið fylgi við slíka hugmynd.

Ég sé að í greinargerðinni er nefnd reynsla Svartfellinga. Ég var í hópi embættismanna og stjórnmálamanna sem fylgdu forsætisráðherra til Svartfjallalands fyrir ekki svo löngu síðan þar sem við ræddum einmitt við þarlenda embættismenn og stjórnmálamenn um forsögu þess hvernig á því stóð að Svartfjallaland tók upp evruna. Að mínu mati er ekki hægt að leita til þeirrar sögu um nein fordæmi eða eitthvað sem gæti stutt málstað okkar Íslendinga hvað það varðar. Þar voru aðstæður þess eðlis að Svartfellingar höfðu tekið upp þýska markið og þegar þýska markið hvarf og evran var tekin upp þá var það eðlileg ráðstöfun af hálfu Svartfellinga. Þeir höfðu raunverulega ekki annan kost, mynt þeirra var horfin.

Síðan fylgir því auðvitað, sem ég tel mjög áhugavert og væri alveg efni í sérstaka umræðu í þinginu, sú spurning hvernig evrunni muni reiða af á næstu mánuðum, missirum og árum. Það er ekki sjálfgefið hvernig sú þróun verður. Við sjáum, eins og ég nefndi reyndar í upphafi máls míns, þróunina sem á sér stað á Írlandi, Spáni og í Portúgal og víðar þar sem þjóðríkin eiga í miklum vandamálum vegna þess að hagkerfi þeirra hafa verið að þróast með öðrum hætti en stærstu hagkerfin, þ.e. hið franska og þýska sem ráða auðvitað mestu um gengi evrunnar. Á sama tíma er fjármálakerfi Evrópu, rétt eins og fjármálakerfi Vesturlanda almennt, í miklum vanda og það er ekki útséð um það hvernig menn munu leysa það eða hvenær það muni takast. Ég tel að þetta séu hlutir sem menn verða líka að hafa fyrir framan sig áður en tekin eru stærri skref í átt að því annaðhvort að tengja íslensku myntina við aðra mynt eða taka aðra mynt upp einhliða eða í samstarfi með öðrum. Með öðrum orðum, næstu missirin og jafnvel árin munum við nota íslensku krónuna og þá þurfum við líka að svara því í þinginu og annars staðar nákvæmlega á hvaða grundvelli sú peningamálastefna á að standa. Ég tel að það verði ekki gert með þeirri peningamálastefnu og þeim viðmiðum sem voru hér áður, menn verða að hugsa þessa hluti upp á nýtt.