136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð. Ég vil þó nefna, af því að hv. þingmaður greip til líkingar um skip, að það er alveg rétt að betra er að vera á stóru og sterku skipi þegar gefur á bátinn en stundum þarf líka skipið að fara í gegnum skerjagarð og sigla fram hjá boðum og þá þarf það a.m.k. að vera þannig að hægt sé að stýra því fram hjá erfiðustu skerjum. Og ef skipið er of stórt og of svifaseint og ef það jafnvel stýrir eftir allt öðrum kompási og allt öðru sjókorti en af því svæði sem siglt er um, kann að fara illa jafnvel þó að menn séu á stóru skipi. Það kann að fara þannig að það steyti á slíkum skerjum að mönnum sé vart líft. Það er einmitt það sem menn hafa verið að horfa á t.d. með Írland, með Spán og yrði alveg örugglega vandamál hjá okkur, ég held að það sé engin leið fram hjá því að svo gæti farið að hagkerfi okkar þróaðist algerlega úr takti við þau hagkerfi sem stýra því á hvaða verði evrópska myntin, evran, er. Það er staðreynd en það breytir ekki því að ef við förum þá leið að búa við okkar eigin mynt — sem við munum þurfa að gera á næstu missirum, ég held að það sé engin leið fram hjá því og ég reikna með að hv. þingmaður sé sammála mér í því — þurfum við auðvitað að ná einhverjum grunni á það hvernig við ætlum að stýra henni hérna næstu missirin. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt og það megi ekki fara þá leið að mynda meiri vaxtamun en kannski 3–4 prósentustig á milli Íslands og annarra landa í kringum okkar af því að annars fara menn aftur í sama gamla farið.

Hitt er líka að það getur náttúrlega ekkert atvinnulíf og engin heimili búið við það vaxtastig sem við höfum búið til hérna. Það var ekki þörf á að gera það með þessum hætti, ég hef þá sannfæringu. Ég tel að Seðlabankinn hefði ekki átt að fara svona hátt með það. Hann hefði átt að segja við ríkisstjórnina og ríkisvaldið: Nú verðið þið að taka upp slakann, það gengur ekki að við förum hærra með vextina. (Forseti hringir.) Við verðum að draga úr ríkisútgjöldunum og þetta verður líka að fara í gegnum vinnumarkaðinn. Það hefði þurft að gera.