136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[18:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að ég ætli að flækja málið meira með skipalíkingu okkar hv. þingmanns er vandinn kannski fólginn í því að þeir sem um véla og ákveða vaxtastigið sem evran byggir síðan á hljóta að horfa til heildarhagsmunanna sem um ræðir. Þeir horfa á stærstu hagkerfin og aflvél hagkerfanna.

Ég man eftir því að seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans sagði, þegar hann ræddi um ríki sem var í vandræðum vegna evrunnar, að þeir tækju jafnmikið tillit til þess og Bandaríkjamenn tækju tillit til ákvarðanamála í Texas þegar vaxtastigið þar er ákveðið. Með öðrum orðum þá verður auðvitað ekki tekið tillit til íslenskra aðstæðna þegar ákvarðað er hvaða vextir eiga að gilda um evruna. Enda væri það út í hött.

Hvað vaxtamuninn varðar get ég verið sammála þingmanninum að því minni vaxtamunur sem er því betra. Ég minni á að á árunum 1995 til 2001 var vaxtamunur á milli Íslands og evrusvæðisins rétt rúmt prósentustig. Þá voru hagkerfin í sæmilegu jafnvægi og ekki mjög mikill vaxtamunur. Ég held að það verði aldrei þannig að það verði enginn vaxtamunur. Það verður alltaf ákveðið álag vegna þess að við erum með lítið hagkerfi og því fylgir ákveðin áhætta sem fylgir ekki öðrum hagkerfum o.s.frv.

Aðalatriðið er að við einhendum okkur í það verk, innan þingsins, á vettvangi framkvæmdarvaldsins og í Seðlabankanum, að finna út hvernig við ætlum að fara inn í næstu missiri og ár með íslensku krónuna. Á hvaða grundvelli. Hvaða hagfræðihugsun á að stýra för þegar kemur að því að við lyftum vonandi smám saman þeim höftum sem eru á gjaldeyrisflutningum til og frá landinu, því það verðum við að gera. Hvernig við náum að lækka vextina, því það verðum við að gera, og halda þeim niðri án þess að missa þetta í einhverja verðbólgu — sem ég reyndar hef engar áhyggjur af að gerist því engin eftirspurn er eftir þessu hagkerfi. Það er alveg furðulegt (Forseti hringir.) að vextirnir skuli haldast þetta háir svona ótrúlega lengi. Það (Forseti hringir.) gengur ekki fyrir okkur.