136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Ármann Kr. Ólafsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir gott innlegg í þessa umræðu og það hversu afgerandi hún undirstrikar það í ræðu sinni að fjárlög eru lög sem fara verði eftir. Ég vil líka taka undir það með henni að það er dapurlegt að við höfum ekki getað dregið úr ríkisútgjöldum á þeim útþenslutímum sem við höfum lifað og ég held að það sé m.a. tengt því að alltaf er verið að miða fjárlagagerðina við landsframleiðsluna, sem einhvers konar hlutfall. Ég held að þegar hagvöxtur fer yfir ákveðið hámark, t.d. 3%, verði að sleppa öllum slíkum viðmiðunum og horfa til krónutöluhækkana á milli ára. Þegar við höfum mjög mikinn hagvöxt á milli ára og látum fjárlögin elta þá prósentuhækkun lendum við í slíku útgjaldafylliríi ef svo má segja. Það er eðli þess þegar fjárlög eru unnin með þeim hætti sem við höfum farið yfir, þ.e. þessar sjálfvirku hækkanir.

Hv. þingmaður kom líka inn á fjáraukann og gat þess að stofnanir væru að redda sér fyrir horn þegar líða færi á fjárlagaárið með því að leggja fram beiðni við fjáraukalagagerðina. Ég held þó að hv. þingmaður hljóti að taka undir það með mér að danska módelið sé miklu betra þar sem ekki er heimilt að fara inn á fjáraukann nema fá fyrst heimild og leyfi fjármálaráðherra og síðan fjárlaganefndar, að fjáraukalagabeiðnin komi inn til fjárlaganefndar áður en fjármunum er eytt, og ef það er ekki gert þannig er vonlaust að koma seinna meir og biðja um auknar fjárlagaheimildir.