136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson sagði, við erum komin út í hálfgert fúafen við gerð fjárlaga. Í góðæri hækkuðu þau ósjálfrátt vegna þess að ekki er í grunninn verið að hugsa hlutina rétt, en það er að mínu mati gert í þingsályktunartillögunni.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að danska leiðin sem valin er — þ.e. að ef í það stefnir að forstöðumenn fari fram úr þeim ramma sem markaður er þurfi að fara fram á beiðnina fyrir fram en ekki eftir á — ætti að vera grundvallaratriði vegna þess að annars erum við einfaldlega að brjóta 41. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands eins og kom fram í máli mínu áðan. Með því að vinna eins og við vinnum gerum við það. Ég held að við ættum að breyta því og fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir, og ég tek undir það að hún er skynsamlegri, hún er réttari og hún kæmi í veg fyrir þetta brot á 41. gr., en þá grein brjótum við næstum árlega í æðimörgum stofnunum í okkar ágæta landi.