136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:48]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Það er gaman að koma í ræðupúlt núna þegar sjálfstæðismenn, sem hafa setið við stjórnvölinn síðustu 18 ár, koma hingað upp hver á fætur öðrum og mæra hver annan fyrir tillögur um endurbætur á vinnubrögðum við gerð fjárlaga. Hvar í veröldinni hafa þeir verið síðustu 18 ár? spyr ég nú bara.

Ég er alveg sammála því að þetta er mjög þörf og góð umræða og mjög mikilvæg og nauðsynleg. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson sagði áðan, það hefur safnast fyrir fita í fjárlögunum. Það má víða skera niður.

Ný nálgun? Þessi umræða kom upp, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, fyrir þó nokkrum árum frá sjálfstæðismönnum sem lögðu þá fram þingsályktunartillögu en slík vinnubrögð hafa þó ekki verið viðhöfð þau ár sem síðan eru liðin. En það er svo sem gott að fletta ofan af gömlum þingsályktunartillögum og koma með nýjar.

Ég vil benda á að hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson talaði um fækkun ráðuneyta. Ég er algjörlega sammála því, það má fækka ráðuneytum. Ég tel samt sem áður að tvö ráðuneyti þurfi að hefja aftur til vegs og virðingar, en það eru sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Þetta eru grunnatvinnustofnanir okkar og það þarf að hefja þau aftur til vegs og virðingar.

Ég tel líka að það yrði Alþingi til sóma að byrja að skera niður hjá sjálfu sér. Það má t.d. taka dagpeninga þingmanna og dagpeninga maka og eftirlaunin af. Það má skera niður í utanríkisráðuneytinu, það má bæta skipulagningu Alþingis, það má örugglega spara eitthvað þar.

Menn hafa hælt sér af því að mikil breyting hafi orðið hér í Alþingi og það hafi gerst vegna framlags fyrrverandi forseta Alþingis. Ég spyr þá: Hvernig í veröldinni var hér áður en sú breyting kom til? Sú breyting hefði í mínum huga gjarnan mátt vera meiri og skilvirkari en hún er.