136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að taka upp mjög brýnt mál hér á þingi. Staðan er þannig að það eru 15.199 manns á atvinnuleysisskrá núna.

Um síðustu mánaðamót var 18,7% verðbólga á ársgrundvelli og það þýðir að u.þ.b. 310 þús. kr. lögðust á 20 millj. kr. húsnæðislán — 300 þúsund, ein mánaðarlaun. Þetta er dæmi um það sem heimilin í landinu búa við við þessar aðstæður fyrir utan að við erum hér í bullandi gjaldeyriskreppu enn þá. Þess vegna er afar sorglegt hver umræðan í þinginu hefur verið á undanförnum dögum og vikum þegar sjálfstæðismenn aðallega hafa komið hér upp í röðum til þess að verja strákana sína í kerfinu.

Þetta eru stóru málin sem við þurfum að ræða hér. Umræða um Evrópusambandsaðild er þar lykilatriði. Við getum fundið ýmsa plástra og reynt að laga með smálausnum og smáskammtalækningum ýmis vandamál úti í samfélaginu en stóra spurningin er: Hvernig ætlum við að leysa þessi brýnu mál til framtíðar? (Gripið fram í.) Þetta eru ekki ný vandamál því að áður en bankahrunið varð voru hér einhverjir hæstu vextir í heimi og hæsta verðbólga í Evrópu. Vandamálið er því ekki nýtt.

Staða heimilanna, staða fyrirtækjanna í dag og sú gjaldeyriskreppa sem við erum í er til komin út af vanrækslu hv. stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, í þessum efnum. Þessi umræða og þetta brýna hagsmunamál hefur verið vanrækt og það er kominn tími til, virðulegi forseti, að við ræðum það hér. Þar sem varaformaðurinn, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, er búin að tæma (Forseti hringir.) ræðutíma sinn óska ég eftir því að formannsframbjóðendur eða fyrrverandi hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins komi hér (Forseti hringir.) upp og svari þeirri spurningu hvernig taka eigi á þessu brýna máli, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)