136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:52]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er nú skrýtið að sitja undir þessum umvöndunum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sem fram komu í ræðu hennar. Ég hef tekið til máls nokkuð oft eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum og fjallað um endurreisn bankanna, Icesave, atvinnusköpun og menntamál. Ég held að þetta séu þau málefni sem við þurfum að ræða við þessar aðstæður og skuldastöðu ríkisins.

Ég minni á að það voru umræður um gjaldmiðilsmál í gær en þá var hv. þm. Katrín Júlíusdóttir víðs fjarri og sakar okkur sjálfstæðismenn núna um að vilja ekki ræða um gjaldmiðilsmál, efnahagsmál eða Evrópumál. Við vorum gerðum það í gær en því miður var hv. þingmaður ekki viðstödd frekar en svo margir þingmenn Samfylkingarinnar við þá umræðu.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að það þarf að ræða hér um stöðugleika í efnahagsmálum og það höfum við gert. Við höfum verið að ræða um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála og framtíðarstefnu í peningamálum. (KaJúl: Hver er hún?) Þetta eru meginspurningarnar sem við þurfum að svara. Ég hef sagt það sem mína skoðun að auðvitað eigum við að skoða alla möguleika í þeirri stöðu. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að innganga í Evrópusambandið leysi öll okkar vandamál, síður en svo. Stækkunarstjóri Evrópusambandsins sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í nóvember að Ísland fengi aðild að Evrópusambandinu eftir fjögur ár í fyrsta lagi, ef við sæktum um, sem ég vona að við gerum ekki. (Gripið fram í.)

Við munum ekki geta tekið upp evru á grundvelli aðildar að Evrópusambandinu fyrr en tveimur árum eftir aðild, þ.e. eftir sex ár, líklega eftir lengri tíma. Ætlar hv. þingmaður að láta hagkerfið brenna á meðan hann bíður eftir að komast inn í Evrópusambandið? Ég er ekki viss um að fyrirtækin og fólkið í landinu geti beðið jafnlengi og hv. þingmaður. En maður veltir fyrir sér: Af hverju spyr hv. þingmaður ekki ráðherra Vinstri (Forseti hringir.) hreyfingarinnar – græns framboðs að því hver þeirra (Forseti hringir.) stefna er í Evrópumálum? (Forseti hringir.) Þeir eru í ríkisstjórn, ekki Sjálfstæðisflokkurinn. (Forseti hringir.)

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Er þessu ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar (Forseti hringir.) og Vinstri grænna sjálfhætt ef (Forseti hringir.) ef Vinstri grænir breyta ekki um stefnu í Evrópumálum?