136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson segir að við eigum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er bara ekki svo einfalt. Eftir þær kúganir sem Evrópusambandið beitti íslenska þjóð síðasta haust — íslenska þjóðin lá svo vel við höggi, hún var búin að tapa bönkunum sínum — beitti það okkur kúgun til þess að taka ábyrgð á Icesave-reikningunum, sem þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra samþykkti.

Það er þvílík skuldbinding að Íslendingar munu ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin í Evrópusambandinu fyrr en eftir áratug. (Gripið fram í.) Þannig að það er tómt mál að taka upp evru þó að við göngum í Evrópusambandið, (Gripið fram í.) það er tómt mál. Það er allt að þakka vinum okkar svokölluðum í Evrópusambandinu sem hv. þingmaður vill endilega ganga í klúbb með. Ég tala náttúrlega bara fyrir sjálfan mig, ég hef yfirleitt ekki talað fyrir heilan flokk, herra forseti, ég segi já við fullveldi Íslands en ég segi nei við samvinnu við Evrópusambandið.