136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla – efnahagsmál og ESB.

[14:05]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, tók hér upp umræðu um gjaldmiðilsmál og Evrópusambandsaðild gagnvart Sjálfstæðisflokknum. En við hljótum að spyrja hann og aðra þingmenn Samfylkingarinnar: Hver er stefna þeirra, hver er stefna ríkisstjórnarinnar og hver er stefna þeirra gagnvart samstarfinu við Vinstri græna? Og hver er stefna Vinstri grænna í þeim málum sem hér voru tekin upp?

Ég held að það hljóti að vera meginspurningarnar og það hljóti að vera þær spurningar sem fólkið í landinu vill fá að heyra svör við. Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn að vinna saman að þeim málum sem skipta máli við þessar aðstæður, þ.e. hag heimilanna og hag fyrirtækjanna í landinu til þess að berjast gegn atvinnuleysi? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málum?

Sú umræða sem beinist hér að Sjálfstæðisflokknum er einhver undarleg Albaníu-umræða gagnvart Vinstri grænum. Maður hlýtur að taka þessa umræðu þannig þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, tekur upp slíka umræðu hér og beinir henni að varaformanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann veit að hún hefur ekki tækifæri til þess að svara þá held ég að full ástæða sé til þess að ræða þessa stöðu undir liðnum störf þingsins á morgun. Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar? Hver er afstaða Vinstri grænna (Gripið fram í.) og í samstarfi við Samfylkinguna í þeirri ríkisstjórn sem nú situr? Eigum við að ræða það á morgun, hæstv. forseti, þegar tími gefst til og það sé þá boðað með eðlilegum fyrirvara?