136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:35]
Horfa

Jón Magnússon (U):

Virðulegi forseti. Hér hafa talað bæði hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, en lítið kemur fram hjá þeim um það hvað olli því að Bretar beittu hryðjuverkalögunum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki verið mynduð í gær, heldur sé nú þó nokkur tími liðinn, a.m.k. sá tími að ríkisstjórnin hefði átt að getað aflað sér upplýsinga hefði verið vilji til þess.

Það var upplýst á viðskiptanefndarfundi í morgun að Landsbanki Íslands er enn undir hryðjuverkalögum. Það var talað um að það hamlaði mjög starfsemi bankans sem er ríkiseign og það skiptir því máli að ríkið gæti að hagsmunum eignar sinnar og reyni að koma í veg fyrir að þessari löggjöf verði beitt áfram gagnvart þessari ríkisstofnun þannig að hún geti með eðlilegri hætti stundað starfsemi sína. Það er grundvallaratriði.

En það virðist ekki hafa valdið ráðamönnum í núverandi ríkisstjórn neinum vandkvæðum að þannig skuli þetta vera. Hæstv. utanríkisráðherra kemur hér upp og talar um það hvernig hlutirnir hafi verið á sögulegum forsendum sem vissulega var allt saman rétt, og satt sagt frá.

En Bretar beittu hryðjuverkalögunum og það hefur ekki fengist skýring á því á hvaða lagalega grundvelli þeir gerðu það. Miðað við það lagaákvæði enska sem um er að ræða get ég ekki séð að um þau tilvik hafi verið um að ræða sem réttlæti beitingu hryðjuverkalaganna. Þess vegna skiptir gríðarlegu máli að sækja málið af öllum þeim þunga sem mögulegt er af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að við verðum ekki fyrir meira tjóni en við höfum orðið og við firrum okkur tjóni sem við annars yrðum fyrir með því að þessi hryðjuverkalög voru sett og hafa verið í gildi.