136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:37]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Íslenska þjóðin situr uppi með risastóran reikning í kjölfar þess að græðgi og fjárhagsleg gredda ungra bankamanna reið þeim að fullu. Vandinn er hins vegar sá að menn vita ekki hversu stór þessi reikningur er því að ekki hefur enn fengist upplýst um lagalegan grundvöll þess að íslenska ríkið, þ.e. íslenska þjóðin, sé hinn rétti skuldari, hvað þá um réttarstöðu okkar vegna beitingar hryðjuverkalaganna í kjölfarið.

Framganga íslenskra ráðamanna í málinu var mjög misvísandi þótt hæstv. utanríkisráðherra haldi öðru fram, að ekki sé minnst á pólitískt tvist algjörlega ópólitísks seðlabankastjóra í beinni útsendingu.

Ég minni á að Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem stendur frammi fyrir gölluðu regluverki sem nær ekki yfir svo víðtækt hrun eins og raunin varð á um og það hlýtur að vera hagur allra þessara þjóða að dómstólar skeri úr um ágreining og ábyrgðir. Íslendingar munu ekki láta kúga sig til að verða öðrum víti til varnaðar og stjaksetja sig í samfélagi þjóðanna þó að ráðamenn hennar hafi verið máttlausir og ráðalausir framan af.

En ef ekki á að leita sökudólgsins hér á landi vil ég gjarnan vita hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur svör við eftirfarandi spurningum.

1. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði látið gera úttekt á því hvort dómstólaleiðin vegna þessarar framgöngu Breta væri tæk í Bretlandi. Ráðgjöfin sem ríkisstjórnin fékk var sú að það þjónaði ekki hagsmunum íslenska ríkisins en íslenska þjóðin vill vita hvers vegna. Hvaða hagsmunir eru það sem ekki er hægt að uppfylla? Og hvers vegna er ekki hægt að uppfylla þá?

2. Bent hefur verið á að hugsanlega megi skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu en þá þarf að vera búið að reyna aðrar tiltækar kæruleiðir. Spurt er: Stendur til að láta reyna á það?

3. Að hve miklu leyti hangir leit að rétti okkar vegna beitingar hryðjuverkalaganna saman við samninga um Icesave-skuldbindingar Landsbanka þarlendis? Með öðrum orðum, voru Íslendingar fórnarlömb í þessu máli og létu þvinga sig, m.a. með þessum aðgerðum, til að setjast að (Forseti hringir.) samningaborði án þess að láta reyna á dómstólaleiðina? Eða getur hæstv. utanríkisráðherra upplýst þingheim og þjóðina alla um það hvað er eiginlega í gangi?