136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:48]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Þau voru á þá leið að hann hvítþvoði fyrrum samráðherra sína og sagði svo að þetta væri bara allt saman Davíð Oddssyni seðlabankastjóra að kenna. Þetta er ekki svona einfalt, virðulegur forseti.

Fyrrum samráðherrar hæstv. utanríkisráðherra tjáðu sig að mínu mati mjög óvarlega og voru með mjög misvísandi skilaboð. Bresk stjórnvöld sáu þetta, eins og allir sem skoða yfirlýsingarnar og líka útskrift af samtalinu sem hv. þm. Árni M. Mathiesen átti við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Það þarf ekki annað en að lesa það til að sjá hvað það er allt byggt á veikum grunni, og algjörlega ljóst að þessi misvísandi skilaboð hljóta að hafa geysileg áhrif á Breta á þeirri ögurstundu sem þarna var. Íslensk stjórnvöld létu skoða hvort þessi aðgerð væri ólögleg, bresk lögmannastofa kvað svo ekki vera og ríkislögmaður tók undir það álit og þjóðréttarfræðingurinn í utanríkisráðuneytinu líka. Íslensk stjórnvöld ákváðu að fara ekki í mál á grunni þessara hryðjuverkalaga í Bretlandi.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni áðan að við erum að blanda saman Icesave-reikningunum og hryðjuverkalögunum. Það er alveg rétt og það var viljandi gert. Það er vegna þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram, m.a. á opinberum vettvangi nýlega, hvort við getum með einhverjum hætti reynt að ná fram betri samningum við Breta út af Icesave-reikningunum vegna beitingar hryðjuverkalaganna.

Hér samþykktu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin svokölluð viðmið, þ.e. að borga Icesave-reikningana — það var samþykkt hérna fyrir stuttu síðan — og fara í viðræður um þau mál. Okkur þingmönnum er svolítill vandi á höndum. Sumir segja: Við getum ráðið við að borga þetta, það er alveg hægt. Tryggvi Þór Herbertsson sagði það í Kastljósinu í gær. Aðrir segja: Við getum ekki borgað þetta, þetta er allt of erfitt. Svo segja sumir: Við getum borgað þetta ef það er vaxtalaust.

Við verðum auðvitað að fá úr því skorið með einhverjum hætti hvort við getum (Forseti hringir.) borgað þessa reikninga eða ekki. Ég tók eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sagðist vilja ná viðunandi (Forseti hringir.) niðurstöðu. Ég ætla að nýta tækifærið hér og spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er viðunandi í þessu sambandi?