136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[14:53]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Þetta frumvarp er lagt fram af öllum þingmönnum Framsóknarflokksins og ég tek það fram sérstaklega í upphafi að þetta mál er eitt af þeim málum sem Framsóknarflokkurinn lagði áherslu á þegar gengið var til viðræðna um að verja vantrausti þá minnihlutastjórn sem nú situr að völdum á Íslandi. Þá lögðum við áherslu á nokkur mál, m.a. um aðgerðir til að taka á erfiðleikum í atvinnulífinu og gagnvart heimilunum í landinu. Annað mál var að ná fram nýjum kosningum hið fyrsta, 25. apríl, og svo að fá stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskrá Íslands. Það er einmitt það mál sem ég er að mæla fyrir hér núna. Þetta mál er okkur framsóknarmönnum afar mikilvægt og við teljum bráðnauðsynlegt að það fái afgreiðslu á þinginu fyrir næstu kosningar og helst sem fyrst.

Frumvarpið var að verulegu leyti unnið í svokallaðri lýðræðisnefnd Framsóknarflokksins sem Jón Kristjánsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra, veitti forustu. Sú nefnd vann að ýmsum hugmyndum varðandi meira íbúalýðræði og hvernig íbúar gætu meira komið að því að taka ákvarðanir hér í landinu með þjóðaratkvæðagreiðslum og öðrum hætti. Sú nefnd kom með hugmyndir um stjórnlagaþing og útfærði þær að einhverju leyti. Síðan fór tillaga frá þessari nefnd inn á síðasta flokksþing Framsóknarflokksins sem haldið var 16.–18. janúar sl. og þar fékk þetta mál vinnslu. Síðan var það samþykkt á því þingi og upp úr þeirri ályktun var þetta frumvarp unnið, virðulegur forseti.

Frumvarpið var kynnt á blaðamannafundi 29. janúar og því dreift hér 6. febrúar. Þetta er forsagan að þessu frumvarpi.

Af hverju erum við yfirleitt að velta því fyrir okkur að setja hér af stað svokallað stjórnlagaþing? Jú, virðulegur forseti, þjóðin upplifir að hún standi á krossgötum og hún vill sjálf marka sér leið til betri framtíðar. Það er alveg ljóst að efnahagshrunið sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum er hvati að því að stór hluti þjóðarinnar vill sjá breytingar á stjórnarháttum hér á Íslandi. Við framsóknarmenn höfum skynjað þennan þunga hjá þjóðinni og höfum viljað bregðast við með því að vinna í stofnunum flokksins og síðan með því að leggja fram þetta frumvarp í þinginu og leggja svona mikla áherslu á það við þá flokka sem hér fara með völd í augnablikinu, Samfylkinguna og Vinstri græna.

Það er alveg ljóst að það eru samtök hér í landinu sem horfa mjög til þessa máls, ég nefni hér sérstaklega samtökin Lýðveldisbyltinguna sem hafa nú þegar sent þingmönnum bréf og flokkunum spurningar sem flokkarnir eru að svara. Þær spurningar ganga meira og minna út á stjórnlagaþing, hvort flokkarnir hafi í hyggju að veita brautargengi þessu máli, því að hér verði sett upp stjórnlagaþing, hvort það megi treysta því að flokkarnir komi því í gegn áður en þingi lýkur og hvernig flokkarnir líti á þetta mál bara yfirleitt. Það má segja að málið tengist svokölluðu Nýja Íslandi og við sem erum í Framsóknarflokknum og upplifum miklar breytingar þar líka innan dyra — sumir kalla flokkinn núna Nýju Framsókn — erum stolt af því að geta verið í forustu við að leggja fram þetta mál á þinginu við þessar aðstæður.

Tvisvar sinnum áður hefur verið lögð fram tillaga um stjórnlagaþing á Alþingi. Hún var fyrst lögð fram af Páli Zóphóníassyni, þingmanni Framsóknarflokksins, árið 1948 og svo aftur af Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi forsætisráðherra, árið 1995.

Ef við lítum til baka sjáum við að stjórnarskrá Íslands hefur breyst alveg ótrúlega lítið í tímans rás. Stjórnarskráin okkar var gjöf frá Danakóngi 1874, fyrsta stjórnarskráin, og sú stjórnarskrá sem Kristján IX. færði okkur Íslendingum var sniðin eftir þeirri dönsku frá 1849. Í þeirri stjórnarskrá var framkvæmdarvaldið í reynd hjá konungi og ráðgjöfum hans en ráðherrarnir voru skipaðir af konungi án samráðs við þingið.

Þegar Ísland varð fullvalda 1918 og síðar lýðveldi 1944 voru ekki gerðar veigamiklar breytingar á stjórnarskránni frá 1874. Þær breytingar sem voru gerðar voru að skipta konungi út fyrir þjóðkjörinn forseta.

Ég vil grípa hér niður, virðulegur forseti, í grein sem Eiríkur Tómasson lagaprófessor skrifaði og ber nafnið „Nú er lag“ og birtist í Fréttablaðinu 14. febrúar sl., afar góð grein og ég skora á þá sem telja mikilvægt að koma hér upp stjórnlagaþingi til að breyta stjórnarskrá Íslands að lesa þessa grein. Í þeirri grein segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Á meðan Danir breyttu stjórnarskrá sinni á síðustu öld til samræmis við tilkomu þingræðis og aukna áherslu á lýðræðislega stjórnarhætti, þá höfum við Íslendingar ekki gert neinar umtalsverðar breytingar á stjórnarskrá okkar ef frá eru taldar gagngerar breytingar á mannréttindaákvæðum hennar og örfáar aðrar breytingar sem fyrst og fremst lúta að skipun og starfsemi Alþingis. Megindrættirnir í skiptingu valds milli forseta (í reynd ráðherra), þingsins og dómstólanna eru óbreyttir frá 1874 eða öllu heldur 1849. Því er stjórnskipuleg staða íslenskra ráðherra nánast sú sama og Danakonungs (og ráðgjafa hans) á miðri 19. öld, þó þannig að ráðherrarnir verða að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis meiri hluta Alþingis á grundvelli þingræðisreglunnar.“

Virðulegur forseti. Það liggur við að maður segi að það sé nú bara skondið að þurfa að viðurkenna að við erum með stjórnarskrá sem er allt of mikið í takt við það sem tíðkaðist 1849. Hún hefur breyst alveg ótrúlega lítið, virðulegur forseti. Síðan við fengum stjórnarskrána hafa stjórnvöld við og við reynt að breyta henni. Nokkrar nefndir hafa starfað. Þær hafa yfirleitt gefist upp og það hefur lítið komið út úr þeim með örfáum undantekningum. Það sem er næst okkur í tíma og rúmi er að í ársbyrjun 2005 skipaði þáverandi forsætisráðherra níu manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána og henni var ætlað að skila tillögum um breytingar á stjórnarskránni þannig að hægt væri að leggja fram frumvarp í árslok 2006. Í greinargerðinni í okkar frumvarpi, virðulegi forseti, er dregið fram að erfiðlega hafi gengið að ná samkomulagi í nefndinni um breytingar og má segja að það eina sem hún hafi komist að samkomulagi um hafi verið að breyta þeirri aðferð sem notuð skuli við breytingar á stjórnarskrá.

Jón Kristjánsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, var formaður þessarar nefndar og við þingmenn sem mörg hver erum hér og fylgdumst með málum í þessari nefnd vitum auðvitað að þetta starf gekk mjög brösuglega. Það voru miklar deilur á milli flokkanna og ég vil tilgreina sérstaklega á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks — þau geta reynt að skýra það nánar í sínum ræðum á eftir — þar sem mjög erfitt var að ná einhverjum samhljómi um breytingar á stjórnarskránni og koma með tillögur um þær. Það var bara ein breyting sem menn gátu fallist á og það var hvernig ætti að breyta stjórnarskránni yfirleitt sem er þó betra en ekki neitt. Nánast ekkert kom út úr þessari nefnd.

Það er vegna þess að þingmenn — það verður að viðurkennast — eru svo hagsmunatengdir og flokkarnir verja svo mikið gildandi fyrirkomulag sem okkur hefur ekki tekist að breyta stjórnarskránni. Hún er úrelt, hún er allt of gömul, hún endurspeglar ekki raunveruleikann eins og hann er í dag og hún endurspeglar ekki vilja þjóðarinnar að mínu mati þannig að við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að þetta mál nái fram að ganga.

Víkjum að stjórnlagaþinginu sjálfu. Eins og við setjum það upp bætist bráðabirgðaákvæði við stjórnarskrána og í því er útfærsla á stjórnlagaþingi. Það er gert ráð fyrir því að á því þingi sitji 63 fulltrúar sem eru kjörnir í almennum kosningum og að þær skuli halda innan fjögurra mánaða frá gildistöku stjórnarskipunarlaga þessara. Það má deila um þessa tölu, hún mætti vera hærri, hún mætti vera lægri og það eru skiptar skoðanir á því hve margir eiga að sitja á svona stjórnlagaþingi. Af þessum sökum vil ég skjóta inn, virðulegur forseti, að sumir hafa talað um að það sé dýrt að setja upp stjórnlagaþing. Það er ljóst að ef fulltrúarnir yrðu 63 yrði kostnaðurinn, miðað við að þeir fengju þingfararkaup, 197 millj. kr. á ári. Kostnaðurinn yrði líklega eitthvað hærri af því að menn þyrftu að fá sérfræðiálit, býst ég við. Hins vegar er örugglega hægt að fækka fulltrúunum á stjórnlagaþinginu, þó ekki þannig að þeir verði svo fáir að þeir endurspegli ekki sæmilega vilja þjóðarinnar, segjum að þeim yrði fækkað ofan í 41 sem er tala sem gæti gengið upp að mati okkar framsóknarmanna til sparnaðar og þá yrði þingfararkaup 41 fulltrúa á stjórnlagaþingi 128 millj. kr., virðulegur forseti.

Þessir stjórnlagaþingsfulltrúar yrðu kjörnir ásamt einum varafulltrúa í svokölluðu persónukjöri. Í frumvarpinu er sagt að þessir frambjóðendur skuli hafa meðmæli 300 kjósenda til að fá að vera í boði. Þetta er líka álitamál sem væri hægt að skoða. Það væri hægt að fækka mjög mikið þessum meðmælendum, hugsanlega ofan í 10, og jafnvel tilgreina að meðmælendurnir ættu þá að vera opinberir, þ.e. það ætti að birta opinberlega nöfn þeirra til að sporna við því að einhverjir færu í framboð og mundu láta listann liggja á bensínstöð eða einhvers staðar þar sem hver sem er mundi skrifa og væri kannski ekkert mikið að hugsa um undir hvað hann væri að skrifa. Meðmælendur þyrfti með frambjóðendum til að einhver mundi vilja bera ábyrgð á frambjóðandanum.

Við leggjum líka til, virðulegur forseti, að í stjórnlagaþingskosningunum væri landið eitt kjördæmi, það væri ekki sex kjördæmi eins og er til Alþingis. Landið væri eitt kjördæmi og hver kjósandi gæti greitt allt að sjö frambjóðendum atkvæði. Hann mætti velja sjö af þeim lista sem er í boði. Allir sem eiga kosningarrétt í dag samkvæmt 33. gr. stjórnarskrárinnar mundu eiga kosningarrétt og vera kjörgengir til stjórnlagaþings yrðu allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar eins og gildir um kosningar í dag að frátöldum forseta Íslands, ráðherrum, alþingismönnum og varaþingmönnum. Hér eru, virðulegur forseti, ráðamenn þjóðarinnar í dag algerlega teknir út fyrir sviga, þeir gætu ekki verið í framboði til stjórnlagaþings enda er hugmyndafræðin sú að færa valdið, tillöguréttinn á því að breyta stjórnarskránni frá þinginu, til stjórnlagaþings, í hendurnar á öðrum, og síðan yrði að sjálfsögðu þjóðaratkvæðagreiðsla um tillöguna sem kæmi frá stjórnlagaþinginu.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir því að forsætisnefnd stjórnlagaþings mundi skipa 31 fulltrúa samkvæmt tilnefningum almannasamtaka, hagsmunasamtaka og stjórnmálasamtaka til setu í hlutaðeigandi starfsnefndum stjórnlagaþings með tillögurétti og málfrelsi. Þetta er gert, virðulegur forseti, til að fá breiða aðkomu afla úr samfélaginu að þeirri vinnu sem fram fer á stjórnlagaþinginu við að koma með tillögu um breytta stjórnarskrá.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir því að stjórnlagaþing skuli starfa í allt að sex mánuði. Þingið mætti framlengja starfstíma sinn um allt að tvo mánuði með einföldum meiri hluta ef hægt gengi en við gerum ráð fyrir því að það gæti tekið um sex mánuði fyrir stjórnlagaþingið að semja tillögu að góðri, nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Einfaldur meiri hluti mundi ráða úrslitum. Varðandi einstök ákvæði í tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og til samþykktar að heildartillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland á þinginu þarf samþykki tveggja þriðju kjörinna þingfulltrúa. Ef þessi tilskildi aukni meiri hluti fyrir tillögu að nýrri stjórnarskrá næst á stjórnlagaþinginu skal tillagan innan tveggja mánaða frá samþykkt hennar á þinginu borin undir alla sem eiga kosningarrétt samkvæmt 33. gr. stjórnarskrárinnar í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar með einföldum meiri hluta greiddra atkvæða. Þá mundi öll þjóðin mæta í þjóðaratkvæðagreiðslu og greiða atkvæði um tillögu stjórnlagaþings að nýrri stjórnarskrá og væntanlega samþykkja, maður gerir frekar ráð fyrir því að þjóðin mundi samþykkja tillöguna með einföldum meiri hluta. Ef svo fer hins vegar að hún geri það ekki sem skal ekki útilokast mundu varafulltrúar á stjórnlagaþingi taka sæti aðalfulltrúa sem yrðu þá varafulltrúar, það yrði sem sagt alveg nýtt þing, varafulltrúar yrðu aðalmennirnir, og þetta nýja stjórnlagaþing fengi þrjá mánuði til að vinna aðra tillögu. Síðan færi sama ferlið í gang, mætti framlengja um einn mánuð og svo ætti að bera aftur niðurstöðu stjórnlagaþings undir þjóðina með sama hætti og fyrr í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ná fram samþykkt.

Síðan eru praktísk atriði, virðulegur forseti, í 1. gr. sem lýsa því betur hvaða kjara og réttinda stjórnlagaþingsfulltrúar skuli njóta og það sem skiptir kannski mestu máli er að þeir mundu njóta þingfararkaups. Fólk þyrfti auðvitað að taka sér frí frá þeirri vinnu sem það gegnir í dag verði það kosið á stjórnlagaþing en það mundi ekki stofnast réttur til eftirlauna samkvæmt lögum um eftirlaun í dag. Það er svo sem verið að leggja til að breyta þeim hér, eins og menn vita.

Meðan á stjórnlagaþingi stendur mundi Alþingi vinna eins og áður þannig að við yrðum með tvö þing í landinu, eitt hefðbundið Alþingi sem vinnur á sama hátt og áður samhliða því að stjórnlagaþing starfar.

Virðulegur forseti. Hvað mundi stjórnlagaþingið ræða? Ég vil nefna nokkur atriði en ekki ber að líta á þennan lista sem ég nefni hér sem einhverja skipun til stjórnlagaþings heldur lista að tillögum sem stjórnlagaþing gæti rætt ef það vill, það fær frjálsar hendur varðandi það hvað það vill taka upp í nýja stjórnarskrá. Á stjórnlagaþinginu gætu komið til álita hugmyndir á borð við afnám þingræðis og beina kosningu handhafa framkvæmdarvalds, t.d. forseta eða forsætisráðherra. Styrking þingsins gæti verið rædd, t.d. að einn þriðji hluti þingmanna gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og ráðherrar gætu ekki setið á þingi. Hér vil ég, virðulegur forseti, staldra aðeins við af því að sú er hér stendur hefur flutt það mál nokkrum sinnum í þinginu (Iðnrh.: Með stuðningi margra.) með stuðningi margra, rétt, að ráðherrar eigi ekki á sama tíma og þeir gegna ráðherradómi að hafa líka atkvæðisrétt í þinginu sem almennir þingmenn. Með því er ekki skilið nógu mikið á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Framkvæmdarvaldið seilist inn á svið löggjafarvaldsins. Menn sitja, má segja, beggja vegna borðs og í erlendum ríkjum, ég nefni sérstaklega Norðurlöndin, bæði t.d. í Noregi og Danmörku, sitja ráðherrar ekki sem þingmenn á sama tíma og þeir gegna ráðherradómi. Norðmenn eru, ég segi nú ekki furðu lostnir en þeir eru mjög hissa þegar maður segir þeim frá því að hér geti ráðherrar greitt atkvæði í þinginu. Þeir eru svo óvanir því.

Þetta mál hefur verið flutt af þeirri sem hér stendur. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur líka flutt mál á þessum nótum og fleiri þingmenn sem hér eru hafa verið aðilar að þessum málum. Þau hafa komist til nefndar en svo hefur þau dagað uppi þar.

Ég nefni líka að stjórnlagaþingið gæti skoðað hugmyndir á borð við betra aðhald mismunandi valdaþátta innbyrðis, þ.e. gagnvart löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi, virkari ráðherraábyrgð, óháðara vald dómara, t.d. með staðfestingu af hálfu aukins meiri hluta þings. Það verður að segjast eins og er og ég held að enginn í þessu samfélagi geti komist undan þeirri umræðu að val á dómurum hefur sætt talsverðri gagnrýni upp á síðkastið þar sem menn hafa ekki talið — og þar vísa ég sérstaklega til m.a. niðurstöðu umboðsmanns Alþingis — að réttrar stjórnsýslu hafi verið gætt við val á dómara.

Hérna vil ég líka nefna aukið valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum stjórnmálaflokka, þ.e. svokallað persónukjör sem hefur einmitt komið til umræðu í aðdraganda þessara kosninga núna. Einnig nefni ég takmörkun kjörtímabils þingmanna og seturéttar ráðherra, aukinn möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnvel frumkvæði að löggjöf frá almenningi, gegnsærra stjórnkerfi, hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og hvert sé hlutverk hans, hlutverk umhverfisnefndar og auðlindaréttar í stjórnarskránni, samband trúfélaga og ríkis og tímabundið framsal hluta ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana. Hér hafa menn m.a. í huga nánari tengsl okkar við Evrópusambandið, breytta kjördæmaskipan og síðast en ekki síst skýrt og ótvírætt sjálfstæði þriggja meginþátta ríkisvaldsins, löggjafarvaldsins, dómsvaldsins og framkvæmdarvaldsins.

Þetta eru líklega þau atriði sem stjórnlagaþing mundi sérstaklega skoða og hugsanlega fleiri.

Það er mjög spennandi hvaða tímasetningar þingmenn sjá fyrir sér fyrir stjórnlagaþing. Við framsóknarmenn teljum þar tvennt koma til greina, annaðhvort að drífa í þessu máli og treysta á að meiri hluti alþingismanna sé það hrifinn af stjórnlagaþingi að þeir séu tilbúnir til að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir með einhverjum breytingum, drífa í að koma því í gegn sem fyrst þannig að við getum kosið til stjórnlagaþings samhliða næstu alþingiskosningum, þ.e. 25. apríl. Þetta mun mörgum þykja mjög bratt. Þetta er hægt að okkar mati og við erum tilbúin til þess að tala fyrir því en gerum okkur grein fyrir því að upp geta komið andstæð sjónarmið hér inni og þá kannski sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum, a.m.k. miðað við það sem maður hefur séð á opinberum vettvangi haft eftir einum fulltrúa sem hefur tjáð sig um mál stjórnlagaþings, hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Það var þungur tónn í honum gagnvart því að fara í þessar breytingar núna og hann talaði um að það þyrfti aldeilis að ná samstöðu um allt sem ætti að gera í sambandi við stjórnarskrána, það mætti ekki rasa um ráð fram o.s.frv. Þar voru notuð öll þau hefðbundnu rök sem notuð eru þegar menn vilja ekki gera neitt.

Það er annaðhvort að drífa í þessu strax og það eru ákveðin rök með því og líka rök á móti. Þetta er ansi bratt, þetta þarf að gerast hratt. Svo er líka hægt að gera þetta hægar, þ.e. að samþykkja stjórnlagaþing fyrir kosningar og þá væntanlega nákvæmlega hvernig það ætti að líta út, staðfesta það eftir kosningar og drífa í að kjósa á stjórnlagaþingið í haust. Svo væri þá væntanleg afurð, drög að nýrri stjórnarskrá, til sex mánuðum síðar, segjum það, og þá væri hægt að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010. Það væri líka hægt. Framsóknarmenn telja báðar aðferðirnar koma til greina og vilja ekki lenda í þeirri stöðu — þess vegna hefur sú hugmynd kviknað að drífa í þessu strax — að næsta ríkisstjórn og næsta þing mundu humma þetta allt fram af sér, tefja og tafsa og það yrði ekkert úr þessu. Það væri mjög slæm niðurstaða og að því leyti er svolítið lokkandi að gera þetta bara strax.

Rökin með því að gera þetta strax eru þau að samkvæmt stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem nú situr á að samþykkja lög um skipan og verkefni stjórnlagaþings. Það er vilji fyrir hendi að einhverju leyti, vonandi að miklu leyti. Tíminn er nægur ef viljinn er á annað borð fyrir hendi hjá meiri hluta Alþingis. Ég held að maður verði bara að viðurkenna það að hér þarf maður að fara að meiri hluta Alþingis, það þýðir ekki að tala um allt Alþingi. Öfl hér inni munu draga lappirnar þannig að sú er hér stendur er komin á þá skoðun að það að ná meiri hluta væri eðlilegt af því að annars gerist ekki neitt.

Ef kosið yrði 25. apríl gæti t.d. framboðsfrestur runnið út 8. apríl og þá hefðu frambjóðendur rúman hálfan mánuð til að kynna sig. Það væri hægt að hafa þá kynningu látlausa og þess vegna á vegum hins opinbera og þyrfti ekki að vera almennt hasarprófkjör eins og vill því miður oft brenna við. Það er að vissu leyti kostur að gera þetta hratt.

Það er líka hægt að segja að ef þetta er gert núna mundu stjórnmálaflokkarnir líklega ekki hafa mjög mikil áhrif á val fulltrúa á stjórnlagaþingi. Þeir eru bara uppteknir í eigin kosningabaráttu til alþingiskosninga þannig að þeir mundu ekki hafa mjög mikil áhrif á hverjir veldust til stjórnlagaþings. Þetta yrði átakaminna, býst ég við, þannig að það eru líka rök. Ef þetta yrði gert svona gæti stjórnlagaþingið komið saman í fyrsta sinn — og þetta er hugmynd frá Eiríki Tómassyni lagaprófessor sem ég gat um áðan — 17. júní næstkomandi, á 65 ára afmæli lýðveldisins. Það gæfist alveg tími til að undirbúa slíkt og þingið mundi svo starfa í 6–8 mánuði og þá væri hægt að bera nýja stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 eins og er hægt líka ef stjórnlagaþingið verður kosið næsta haust og tekur þá til starfa. Það er margt sem mælir með því að gera þetta strax. Það sem mælir því á móti er að tíminn er naumur og það þyrfti að vera talsverður vilji innan dyra, meirihlutavilji, til að ná því í gegn að hægt sé að fara þessa leið.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Þetta mál, stjórnlagaþing, er mjög stórt og það er reyndar svo mikilvægt í augum margra að Lýðveldisbyltingin svokallaða er jafnvel að íhuga framboð til alþingiskosninga vegna þessa máls, þ.e. ef héðan koma mjög neikvæð skilaboð sem ég vona að verði ekki muni það hvetja Lýðveldisbyltinguna í framboð. Af því tilefni vil ég segja að framsóknarmenn eru stoltir af því að hafa frumkvæði í þessu máli, vera komnir með frumvarp hérna inn. Ég er mjög ánægð með, og undirstrika það, viðtökur bæði Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gagnvart þessu máli. Það er nefnd að störfum við að undirbúa þetta mál og það er hægt að nýta þá vinnu ásamt þeirri vinnu sem við framsóknarmenn höfum nú þegar lagt í með þessu frumvarpi og þeim flutningi að vera með það í þinginu núna. Það fer væntanlega strax til nefndar og vinnst þar áfram. Ég vil koma því skýrt á framfæri að ég er mjög ánægð með Samfylkinguna og Vinstri græna, að þeir skuli sýna þennan vilja og ég vona að sá vilji endist út í gegn. Frjálslyndir eru aðeins óskrifaðra blað en taka væntanlega til máls á eftir. Svo er auðvitað ekki alveg skýrt hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill í þessu en ég vona að hann falli ekki í þá gryfju að tala neikvætt um stjórnlagaþing, finna því allt til foráttu og tala um að ekki sé hægt að gera neinar breytingar nema í 100% samkomulagi af því að hér sé um stjórnarskrána að ræða. Ég er ekki lengur sammála því. Ég leit þannig á málið einu sinni, ég viðurkenni það, en ég er ekki á því máli lengur. Ef það á að bíða eftir því að allir þingmenn verði sammála um eitthvað í sambandi við stjórnarskrána bíðum við til eilífðarnóns. Nú verðum við að taka þetta mál úr höndum þingsins og flytja það til þjóðarinnar. Stjórnlagaþing er fulltrúar þjóðarinnar, er kosið í almennum kosningum þar sem landið er eitt kjördæmi og þar verða fulltrúar sem þjóðin treystir til að koma með drög að nýrri stjórnarskrá. Síðan á þjóðin að blessa þá tillögu eða hafna henni þegar þar að kemur.

Ég vona að sjálfstæðismenn taki vel í þessa hugmyndafræði og vil alveg gefa þeim möguleika á að einhenda sér í þessa vinnu með okkur sem teljum mikilvægt að koma hér sem fyrst á stjórnlagaþingi svo (Forseti hringir.) við fáum nýja stjórnarskrá og breytum um stjórnarhætti af því að gömlu stjórnarhættirnir leiddu ekki til góðs.