136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir segir að hún sé stolt af Framsóknarflokknum fyrir að hafa lagt frumvarpið fram. Ég tel að Framsóknarflokkurinn geti verið stoltur af þessu frumvarpi og ég kem hingað einungis til að lýsa yfir stuðningi við meginhugmyndir í því.

Sömuleiðis er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um að það sé hárrétt að taka þetta mál úr höndum þingsins, þ.e. breytingar á stjórnarskránni og láta í hendur stjórnlagaþings sem er kosið með þeim hætti sem lýst er í frumvarpinu.

Einnig er ég þeirrar skoðunar að það séu full tækifæri til að ljúka þessu máli áður en þing lýkur störfum fyrir kosningarnar í vor. Ég held að nú sé ákveðið tækifæri til að taka á í þessum efnum og ég lýsi því alla vega fyrir mína hönd og vonandi minna vandamanna að við erum reiðubúin til að taka þátt í því starfi.

Það kann að vera að við höfum einhverjar sérstakar skoðanir á ýmsu sem fram kemur í frumvarpinu, svo sem fjölda þeirra sem eiga að sitja á þinginu, en ég er til umræðu um hvaðeina í þeim efnum. Sjálfur tel ég að það sé kannski fullmikið að ætla slíku þingi sex mánuði til að ljúka störfum og eiga síðan kost á framlengingu um tvo mánuði til viðbótar. Það segi ég með vísan til þess sem kemur fram í greinargerðinni að stjórnarskrárnefndin sem sat á sínum tíma og skilaði einu frumvarpi af sér hefur bæði dregið saman miklar upplýsingar sem varða þau atriði sem hv. þingmaður nefndi sem hugsanleg umræðu- og ákvörðunarefni á stjórnlagaþingi og sömuleiðis óskaði sú nefnd eftir mjög ítarlegum útdráttum frá einmitt sumum þeirra fræðimanna sem hv. þingmaður nefndi hér um þessi efni.

Ég vildi kannski leggja inn eitt efni til viðbótar sem ég tel óhjákvæmilegt að ræða á slíku (Forseti hringir.) stjórnlagaþingi og það er auðvitað framsalsákvæðið í stjórnarskránni sem gerir okkur kleift, Íslendingum, að samþykkja aðild að yfirþjóðlegum stofnunum.