136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:26]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög jákvæð skilaboð gagnvart þessu máli, að hæstv. ráðherra er tilbúinn til að fara þessa leið. Það sem mér fannst eftirtektarverðast var sú yfirlýsing hæstv. utanríkisráðherra að hann væri tilbúinn til að láta kjörið á fulltrúum til stjórnlagaþingsins fara fram við næstu alþingiskosningar 25. apríl. Mér finnst það afar sterk yfirlýsing komandi frá leiðandi ráðherra í ríkisstjórninni.

Ég verð að segja eins og er að Eiríkur Tómasson lagaprófessor, sem er varfærinn maður, hefur fært svo sterk rök fyrir þessu máli að ég tel að þingið eigi að skoða þetta mjög vel núna. Það er alveg ljóst að þetta er hægt, það þarf bara viljann. Við deilum því áhuga okkar, við framsóknarmenn (Forseti hringir.) og forustumaður Samfylkingarinnar, á því að skoða það virkilega að klára þetta mál strax.