136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:28]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að þetta frumvarp boði byltingu, það er fráleitur málflutningur. Ég ætla að vona að sjálfstæðismenn og hv. þm. Birgir Ármannsson séu ekki með þessum orðum að reyna á einhvern hátt að segja að frumvarpið sé eitthvað annað en það er. Kallað er eftir breytingum á stjórnarháttum á Íslandi og kallað hefur verið eftir þeim í langan tíma. Það hafa margir þingmenn gert en við höfum ekki borið gæfu til þess, þingmenn, að ná samstöðu um breytingar. Þess vegna verðum við að setja valdið í hendur þjóðarinnar og breyta stjórnarskránni þannig. Þetta er alls ekki bylting, þetta er bara nauðsynleg breyting. Það er verið að taka gamla og úrelta stjórnarskrá og gera hana lýðræðislegri.

Varðandi samstarfið við stjórnarflokkana (Forseti hringir.) þá er ákvæði um þetta atriði í verkáætlun, við viljum gjarnan ná því fram og ég heyri hérna að Samfylkingin er mjög jákvæð.