136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fylgja eftir spurningu minni um samstarf. Mér er kunnugt um það sem stendur í verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um að sett verði lög um stjórnlagaþing. Mér er líka kunnugt um að ríkisstjórnin hefur sett á fót starfshóp til að vinna að stjórnarskrárbreytingum, þar á meðal tillögum sem varða stjórnlagaþing.

En ég velti fyrir mér hvernig samspil Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarflokkanna er í þessu. Hvort ríkisstjórnarflokkarnir muni styðja frumvarp framsóknarmanna eða hvort framsóknarmenn muni leggja fram frumvarp sitt og bíða síðan eftir frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna.

Ég velti líka fyrir mér hvort hv. þingmaður geti svarað því til hvort Framsóknarflokkurinn telji ástæðu til að gera aðrar breytingar á stjórnarskránni fyrir vorið, eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til, eða hvort allar stjórnarskrárbreytingar eiga að bíða þessa nýja stjórnlagaþings.