136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er já. Algjörlega ljóst er að stjórnarskráin er úrelt. Megindrættir skiptingu valds í stjórnarskránni milli forseta, sem eru í reynd ráðherrar, þingsins og dómstóla hafa verið óbreyttir frá 1874 eða öllu heldur frá 1849 eins og lagaprófessorinn Eiríkur Tómasson bendir á. Þetta vitum við öll.

Stjórnarskráin er úrelt. Oft hefur verið reynt að breyta henni og okkur hefur mistekist. T.d. er ekki minnst á orðið lýðræði í stjórnarskránni enda var það orð ekki svo tamt í munni þegar hún var samin.

Ákvæði um vald og hlutverk forseta Íslands. Allir sjá að það er alveg hrópandi hversu óljóst það er. Nú er einmitt lag að gera þessar breytingar, vegna þess að almenningur er farinn að sjá þetta, skilja og finna (Forseti hringir.) eins og við flestir stjórnmálamenn. Nú er einmitt lag.