136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:35]
Horfa

Jón Magnússon (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er það ekki þannig að stjórnarskráin stenst í meginatriðum? Er ekki verið að tala um að breyta einungis ákveðnum litlum hlutum — ég er ekki að tala um annað en að þeir skipti verulegu máli? En er ekki talað um að mannréttindaákvæði eigi að standa svo sem þau eru? Er ekki talað um að í meginatriðum megi skipan dómsmála standa svo sem verið hefur? Er verið að tala um að breyta kirkjuskipun í landinu? Er ekki fyrst og fremst verið að tala um stjórnskipunarþátt stjórnarskrárinnar en að hún standist að öðru leyti?

Miðað við hvernig stjórnlögum er háttað í nágrannaríkjum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, er íslenska stjórnarskráin að einhverju leyti úreltari eða með öðrum hætti þannig að hún krefjist slíkrar gagngerrar endurskoðunar? Er ekki svo að í grunninn er íslenska stjórnarskráin með svipuðum hætti og á hinum Norðurlöndunum, þó með þeim frávikum sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gat um í framsöguræðu sinni?