136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að heyra að hv. þm. Pétur Blöndal er jákvæður gagnvart málinu. Að það þurfi að breyta stjórnarskránni og ekki pikka út einhver einföld atriði, heldur endurskoða hana frá grunni. Það er meginmálið. Ég fagna því að hann mun væntanlega aðstoða við að ná málinu í höfn.

Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki dottið í hug sú leið að menn skrifuðu hver upp á hjá öðrum, einhver 300 manna hópur, og færu allir saman í framboð. Mér hefur bara ekki dottið það í hug.

Eins og ég nefndi áðan eru ýmsar leiðir færar. Hægt er að hafa 300 manns sem meðmælendur. Það er hægt að hafa þá færri og hafa þá opinbera svo hægt sé að sjá hverjir það eru. En þetta er praktískt útfærsluatriði. Aðalatriðið er að þeir sem fara í framboð verða auðvitað að fá flest atkvæði í samfélaginu. Þannig að ég á von á því að við munum kjósa hér mjög (Forseti hringir.) glæsilega fulltrúa inn á stjórnlagaþingið. Fólk sem sýnir að það hefur þekkingu og getu og vill breyta stjórnarskránni.