136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson velti ýmsum hlutum fyrir sér í framsögu sinni, sérstaklega þar sem talað var um það að þetta væri í raun bylting. Þegar stjórnlagaþing hafa almennt verið haldin hafa þau verið haldin í kjölfar byltingar. Það má segja að við höfum verið að horfa upp á byltingu á Íslandi, sem er kölluð búsáhaldabyltingin, og því sé mjög eðlilegt að sinna þeim kröfum sem komu fram þar. Meðal þeirra krafna sem þar voru settar fram var sú að haldið yrði stjórnlagaþing og stjórnarskráin yrði endurskoðuð og erum við framsóknarmenn að svara því kalli.

Við vorum að vísu byrjuð að vinna að þessu löngu áður. Eftir áralangt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komumst við að þeirri niðurstöðu að það eina sem mundi kannski virka væri að koma á stjórnlagaþingi og taka valdið af þinginu varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar, því að við sjáum mjög skýrt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt allt upp úr því að halda valdinu á hendi sem fæstra, þjappa saman valdinu. Hugmyndin um stjórnlagaþing kemur einmitt úr hópi innan Framsóknarflokksins sem fjallar um íbúalýðræði og hvernig hægt sé að auka lýðræðið á Íslandi.

Við höfum 65 ára reynslu af því að reyna að breyta stjórnskipan landsins og það hefur ekki gengið. Það er búið að breyta nánast öllum öðrum köflum stjórnarskrárinnar en stjórnarskipunarkaflanum. Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því að stjórnlagaþingið fái of skamman tíma en í því sambandi má geta þess að nokkrar nefndir hafa starfað undir forsæti ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Gunnars Thoroddsens og Bjarna Benediktssonar, og sumar mjög lengi og hafa ekki skilað neinu af sér. Ég held því að það sé mjög eðlilegt að gerðar séu ákveðnar kröfur um að stjórnlagaþingið starfi og skili ákveðnu verki af sér sem þjóðin geti síðan kosið um.

Ég spyr hv. þingmann, mér fannst skorta á upplýsingar um það í ræðu hans: Hvað er það nákvæmlega (Forseti hringir.) sem hann mundi vilja breyta varðandi stjórnarskrána?