136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist hv. þingmaður ganga út frá því að þjóðin kjósi í alþingiskosningum tóma kjána til að sitja á Alþingi en tóma snillinga ef það er kosið til stjórnlagaþings, tóma sérfræðinga. Hvernig ætlar hv. þingmaður að tryggja að sérfræðingar verði kosnir á stjórnlagaþing? Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að sömu element búi þar að baki, að sömu þættir ráði því hverjir verði kosnir og hverjir ekki kosnir og gildir varðandi kjör til Alþingis? (Gripið fram í.)

Varðandi það að stjórnmálamenn eigi ekki að fara með breytingar á stjórnarskránni þá verð ég að benda á að stjórnarskrármál, eins og ég sagði í ræðu minni, eru einhver pólitískustu mál sem um getur. Þau snúast oft og tíðum um kjarna stjórnmálastefna. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að þeir sem vilja breyta stjórnarskránni að einhverju leyti bjóði sig fram til Alþingis og skýri það fyrir kjósendum hvað þeir ætli að gera varðandi stjórnarskrána, reyni síðan að fá sínu framgengt með þeim hætti. Ég sé ekkert að því að sú leið sé farin.

Hér verða kosningar 25. apríl, að manni skilst. Það liggur reyndar ekki ljóst fyrir hvenær á að kjósa. Það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um það en það er stefnt að því 25. apríl. Þá er kosið til Alþingis. Þá geta landsmenn allir, þjóðin, þá getur þjóðin kosið þá menn sem hafa þær hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar sem hún vill. Ekkert hindrar það. Ég held að menn megi ekki gleyma þessum þætti í þessu sambandi.

Varðandi það hvort ég sé sáttur við hlutina eins og þeir eru þá vil ég segja: Nei, ég er það ekki að öllu leyti. Ég tel að breytingar séu ágætar og góðar, sumar nauðsynlegar. Ég vara hins vegar við að menn fari út í svona breytingar í óðagoti.