136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Það er ekkert óðagot hér á ferðinni. Það er einfaldlega brýn nauðsyn. Ég fagna því að þingmaðurinn komi hér fram og viðurkenni að það þurfi að breyta hlutunum. En af hverju hefur þeim þá ekki verið breytt í valdatíma Sjálfstæðisflokksins? Af hverju stöndum við núna frammi fyrir því að allt kerfið er einfaldlega í molum? Hvenær á að breyta ef ekki núna?

Þetta snýst ekkert um það að við treystum ekki alþingismönnum. Við segjum bara: Það er miklu betra og miklu líklegra að það verði breyting á ef við búum til stjórnlagaþing þar sem koma óháðir menn og eru ekki að búa til starfsreglur fyrir sjálfa sig. Þjóðin hlýtur að sjálfsögðu að velta því fyrir sér þegar við stöndum hérna og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa komið og staðið í þessari pontu og sagt að þeim líði eins og afgreiðsludömum á kassa. Það voru orð þingmanna Sjálfstæðisflokksins, ekki annarra.