136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:16]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að það skuli vera rætt um grundvallarlöggjöf lýðveldisins í þingsölum og settar fram hugmyndir um þau atriði. Ég hef ekkert út á það að setja að menn setji slík mál í forgang, jafnvel af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég set út á eitt í aðdraganda málsins sem er að málið skuli sett fram með gamalkunnum aðferðum stjórnmálanna, með hrossakaupum. Einn flokkur með 12% atkvæða selur stuðning sinn við ríkisstjórn því verði að hinir flokkarnir, minnihlutaflokkarnir, kaupi stuðninginn með því að styðja stjórnlagaþing.

Það er afar ógeðfellt og eitt af því sem hefur kannski komið óorði á stjórnmál almennt í gegnum tíðina. Kjósendur hafa séð mörg dæmi um svona hrossakaup þar sem farið hafa í gegnum þingið mál sem í raun hafa ekki notið meirihlutastuðnings en hafa fengið meiri hluta atkvæða vegna hrossakaupanna.

Það er hrossakaupalykt af þessu máli. Við sjáum það á því hvað mikill hugur fylgir máli hjá ríkisstjórnarflokkunum að annar ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, er fjarverandi í umræðunni. Ekki einn einasti þingmaður Vinstri grænna hefur sést í þingsalnum síðan umræður hófust. Þeir eru allir komnir í kosningabaráttuna, komnir út á land og halda fundi og láta Samfylkingunni eftir að sitja í þingsölum og reyna að tala fyrir hönd þessarar aumu ríkisstjórnar, virðulegi forseti.

Einn ráðherra Samfylkingarinnar kemur hér upp til þess að reyna að hafa framsóknarmennina góða með því að flytja í andsvari á einni mínútu loðna yfirlýsingu um almennan stuðning um grundvallaratriði málsins og er svo hlaupinn út. Það er vegna þess að þeir keyptu ríkisstjórnarstól sinn þessu verði. Það er ekki alveg ljóst hvernig málið endar. Það er ekki alveg ljóst hvernig minnihlutaríkisstjórnin mun að lokum semja við Framsóknarflokkinn um þetta mál en það er ljóst að það er hluti af verðinu fyrir ráðherrastólana. Þess vegna er þingmannamál á dagskrá á undan stjórnarfrumvarpi sem er næsta mál á dagskrá.

Þetta er ógeðfellt og mælir kannski ekki með málinu. (Gripið fram í.) Það er miklu heiðarlegra — úr því að hér er kallað fram í — fyrir flokk að þora að vera í ríkisstjórn. Ég er ekki viss um að það sé endilega besta leiðin að kaupa sig inn í ríkisstjórnaráhrifin en þora ekki að sýna sig. (Gripið fram í.) Ég náði ekki þessu frammíkalli, virðulegi forseti, en það er sjálfsagt að svara því ef hv. þingmaður kemur því til mín á eftir.

Varðandi innihaldið sýnist mér málið byggjast á algerri vantrú á því sem fyrir er. Stjórnarskráin er afskrifuð sem ónýtt plagg og framsögumaður sagði um stjórnarskrána að hún væri úrelt. Annar þingmaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sagði: Allt kerfið er í molum. Hvaða kerfi er í molum, virðulegi forseti? Allt kerfið? Er það Alþingi sem er í molum? Er það ríkisstjórnin sem er í molum? Eru það dómstólarnir sem eru í molum? Hvað er það sem er í molum, virðulegi forseti, og kallar á að kastað sé upp í loft því sem við höfum án þess að vita hvað kemur niður? Og það sem einkennilegra er, án þess að það séu neinar hugmyndir eða tillögur um hvað það er sem þarf að breyta. Það er bara sagt: Stjórnarskráin er úrelt.

Ég segi: Nei. Stjórnarskráin er ekki úrelt. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var samþykktur á Alþingi 1995 og hann er ekki úreltur, virðulegi forseti. Hann er mjög góður. Ýmislegt fleira í stjórnarskránni hefur verið endurskoðað síðan hún var sett árið 1944 og ég fellst ekki á að þeir kaflar séu úreltir.

Ýmislegt hefur verið í stjórnarskránni óbreytt frá upphafi en það er ekki endilega úrelt fyrir það. En það er vissulega með stjórnarskrána eins og annað að hún hlýtur að taka breytingum í tímans rás og það eru á henni ágallar sem menn kunna að sjá og vilja gera breytingar á.

Í desember 2005 kom út mikið rit sem unnið var á vegum stjórnarskrárnefndar um stjórnarskrána. Meðal annars var þar ágrip af þróun stjórnarskrárinnar sem unnið var af sérfræðinganefnd sem Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen, Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson skipuðu. Niðurstaða þeirra um stjórnarskrána var dregin saman í nokkrum töluliðum sem mér finnst fróðlegt að fara yfir í ljósi fullyrðinganna um stöðu stjórnarskrárinnar og kerfisins um þessar mundir.

Þessir sérfræðingar segja að fram að því þegar þetta ágrip var tekið saman hafi verið lögð áhersla á að þróa stjórnarskrána í samstöðu helstu stjórnmálaaflanna. Þetta mál er ekki í samstöðu við einn eða neinn. Það er bara hrossakaupamál. Ekki er leitað eftir samstöðu við aðra flokka svo mér sé kunnugt um. Það er bara heimtað að fá það afgreitt í staðinn fyrir stuðning við ríkisstjórnina. Vikið er frá grundvallaratriðum sem menn hafa unnið eftir frá því að lýðveldið var stofnað, að reyna að ná samkomulagi um breytingar.

Í öðru lagi segir, með leyfi forseta, að lítið sé hægt að álykta af þeim gögnum sem hér eru skoðunar í hvaða mæli ágreiningur ríkir um I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar. Deilur um þingræðið hafa ekki verið fyrirferðarmiklar frá því um miðjan níunda áratuginn. Tillöguflutningur síðustu 15 ár sem lýtur að þessum gögnum hefur einkum snúist um þjóðaratkvæðagreiðslur og þingsetu ráðherra.

Það er það sem þingmenn hafa verið að bera inn á borð síðustu 15 árin og kannski má segja að það séu atriðin sem menn telja að þurfi breytinga við. Ég hef sjálfur nokkrum sinnum flutt frumvarp um að breytingar á stjórnarskrá séu aðeins gerðar með samþykki þjóðarinnar sem í upphafi setti stjórnarskrána og auðvitað á enginn annar að geta breytt henni en þjóðin sjálf. Í öðru lagi að ráðherrar sitji ekki á þingi og í þriðja lagi að ráðherrar hafi ekki löggjafarvald eins og þeir hafa með bráðabirgðalagavaldinu og hafa misbeitt, síðast á síðasta ári með bráðabirgðalögum vegna Suðurlandsskjálftans. Það var algjör misbeiting. Þetta eru atriði sem ég tel að þurfi að breyta en ég er ekki þar með að segja að stjórnarskráin sé úrelt. Ég er ekki að segja að kerfið sé ónýtt.

Mér finnst líka athyglisvert að flutningsmenn ganga út frá því að stjórnmálaflokkarnir séu ónýtt gagn. Þeir hafna stjórnmálaflokkunum sjálfum. Þeir hafna kjördæmaskipaninni í landinu vegna þess að stjórnlagaþingið sem á að vera súperþingið sem á að geta gert betur en Alþingi sjálft á að vera kosið persónukjöri. Sem sé, stjórnmálaflokkarnir eiga ekki að koma að því.

Hvernig stendur á því ef það er sjónarmið flutningsmanna að stjórnmálaflokkarnir séu hin óhreinu börn Evu? Af hverju á þá ekki að leiða þá alveg til lykta, banna þá líka í alþingiskosningum? Það hlýtur þá að koma út úr því miklu betra Alþingi, miklu snjallari alþingismenn en stjórnmálaflokkarnir hafa hingað til teflt fram og kjósendur sjálfir valið. Þarf kannski líka að skipta um kjósendur, virðulegi forseti?

Síðan er kjördæmaskipaninni hafnað og atkvæðisréttur hvers og eins er þrengdur. Í dag getur hver kjósandi valið um jafnmarga þingmenn og eru þingsæti í því kjördæmi sem hann tilheyrir. Í Norðvesturkjördæmi eru átta og svo jöfnunarsæti, 11 og upp í 12 í Suðvesturkjördæmi.

Hér á kjósandinn bara að geta valið sjö. En það má vera í einu kjördæmi og það á ekki að hafa áhrif á alla þá sem kjósa á úr þessu eina kjördæmi heldur bara sjö af þessum 63. Hvernig halda menn að muni raðast inn á stjórnlagaþingið úr þessu eina kjördæmi þar sem 70% atkvæða eru hér á höfuðborgarsvæðinu? 95% af fulltrúum stjórnlagaþingsins verða af höfuðborgarsvæðinu. Það er það sem gerist. Einstaka maður utan af landi slysast inn á stjórnlagaþing ef hann er þjóðþekktur og hefur ekki allt of slæmt orð á sér fyrir afskipti af stjórnmálum eða einhverju slíku. Þá gæti hann hugsanlega verið kosinn. Hugsanlega, en það er ekki mikið meira.

Það er langur vegur frá því að þingmaður Framsóknarflokksins, Ólafur Þ. Þórðarson, lagði fram frumvarp til nýrrar stjórnarskrár árið 1986. Þá lagði hann það fram í anda Samtaka um jafnrétti á milli landshluta, sjónarmiða sem hafa nú kannski verið grundvöllur Framsóknarflokksins, að standa vörð um landsbyggðina og koma upp fylkjaskipan þar sem landshlutarnir hafa völd í eigin málum. Þar sem er ekki allt sogað suður til Reykjavíkur af landsins gæðum og sjávarins nytjum til þeirra sem spila alla rúllettuna á höfuðborgarsvæðinu. Nei. Nú eru menn komnir á þá skoðun að hafa eitt hið nýja Ísland, höfuðborgarsvæðið og áhrifalausa landsbyggð.

Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki framför og mér finnst einkennilegt að halda því fram að á stjórnlagaþing muni veljast fólk sem geti miklu frekar náð samkomulagi um mál en fólk sem þjóðin hefur kosið í alþingiskosningum. Hvaða rök standa til þess að 63 einstaklingar, valdir í persónukjöri, geti frekar náð samkomulagi um mál en 63 einstaklingar, valdir af listakjöri? Má ég biðja um útskýringar á því? Eru það flokkshagsmunir líka?

Ef það eru flokkshagsmunirnir sem koma í veg fyrir að menn nái samkomulagi, eigum við þá ekki að afnema stjórnmálaflokkana? Líka í alþingiskosningum? Eða hvað? Á vinstri höndin ekki að vita hvað sú hægri gjörir? Eiga menn að hafa tvö Alþingi eftir ólíkum reglum? (HSH: Við erum enn að tala um að afnema flokksræði.) Já ég tek undir að það megi afnema flokksræði. Ég hef lagt mitt af mörkum til þess að takast á við það. Ég verð þó að viðurkenna að það er ekki með allt of góðum árangri. (StB: Og gekk verst í Framsókn.)

Ég er jafnákveðinn í því að flokkshagsmunirnir geta verið mjög slæmir. En flokkshagsmunirnir eru kannski þegar að er gáð í höndum þingmannanna sem hér sitja. Þeir hafa valdið í sínum höndum. Teknar hafa verið margar slæmar ákvarðanir á undanförnum árum vegna þess að þingmenn ákváðu að nota vald sitt í þágu forustunnar sem krafðist þess að þeir færu að þeirra vilja en ekki til þess sem þeir vissu að væri rétt að gera.

Þar hefur verið hinn stóri galli í íslenskri stjórnskipan á undanförnum árum. Leysa menn þann galla upp með stjórnlagaþingi og halda svo áfram að kjósa til Alþingis eftir listakjöri? Það er það sem verið er að segja okkur. Ef stjórnmálaflokkarnir sjálfir eru vandamálið skulum við taka á því. Þá skulu menn setjast niður og velta því fyrir sér hvernig breyta á stjórnarskránni þannig að það verði ekki vandamál.

En við skulum ekki tala um stjórnlagaþing þar sem má ræða allt og ekkert og enginn veit hvað kemur út úr því vegna þess að það verður bara óskipulagt, ómarkvisst og tekur langan tíma og mun litlu skila. Það er þá rétt að menn hafi kjark til að segja það sem þarf að segja, taka á því sem á þarf að taka. Þá ná menn árangri, virðulegi forseti, ef menn hika ekki við að stinga á þeim kýlum sem þeir sjá.