136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Við sem störfum á Alþingi höfum reynt í 65 ár — að vísu ekki sú sem hér stendur — að koma fram ákveðnum breytingum. Það var lagt upp með það strax þegar núverandi stjórnarskrá var samþykkt, 1944, að fara ætti í breytingar á stjórnskipun landsins. Síðan þá hafa verið skipaðar endalausar nefndir, sem hafa starfað mislengi. Niðurstaðan hefur verið sú að ekki hefur enn komist í gegnum þingið breyting á þeim kafla sem varðar stjórnskipun Íslands. Ég mundi því segja að við höfum verið í ákveðinni tilraunastarfsemi í 65 ár við að reyna að breyta stjórnskipuninni og lagfæra hana og höfum enga niðurstöðu fengið. Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar virðast ekki geta aðskilið eigin hagsmuni frá hagsmunum þjóðarinnar og hvernig unnt er að tryggja aukið lýðræði í landinu. Sú samþjöppun sem hefur orðið á valdi — og við höfum upplifað það aftur og aftur að þingmenn hafa gefið eftir vald sitt til framkvæmdarvaldsins, þess ægivalds, jafnvel tveggja eða þriggja manna sem hafa verið oddvitar viðkomandi ríkisstjórnarflokka — gerir það að verkum að við framsóknarmenn teljum ástæðu til að taka einmitt þetta mál um endurskoðun á stjórnarskránni og færa það aftur yfir í hendur þjóðarinnar, þaðan sem valdið raunverulega kemur.

Við höfum líka talað um, þó að það komi ekki fram í greinargerð með frumvarpi okkar, að ef til vill sé ástæða til að flýta enn frekar kosningum til stjórnlagaþings og jafnvel hafa þær samhliða alþingiskosningum. Við yrðum væntanlega allt of önnum kafin við að berjast fyrir okkar eigin sætum til að skipta okkur of mikið af því hverjir yrðu kosnir á stjórnlagaþingið.