136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:56]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi setið í þingsal allan tímann sem ég talaði þannig að mér finnst leitt ef það hefur ekki komist til skila að 65 ára þrautaganga sem ekki hefur skilað miklum breytingum á stjórnarskránni gerir það að verkum að ég tel að taka þurfi þennan kaleik frá stjórnmálamönnum. Málið snýst fyrst og fremst um það og ég held að hv. þm. Birgir Ármannsson sé vísvitandi að reyna að snúa út úr hér. Pólitíkin hefur ekki svör við þessum spurningum og við skulum bara hætta að spyrja þeirra og vísa málinu til stjórnarskrárgjafans sjálfs, þjóðarinnar.

Varðandi seinni spurninguna þá er hann væntanlega að spyrja um álit mitt á þremur breytingartillögum sem liggja fyrir í málaskrá ríkisstjórnarinnar. Ég verð að viðurkenna að sjálf hefði ég kosið að um þessar breytingar yrði fjallað á stjórnlagaþinginu. Hins vegar tilheyri ég þeim flokki sem ver núverandi ríkisstjórn vantrausti og um þau mál sem hún kann að leggja fram á þeim tíma sem þingið starfar fram að kosningum hef ég efnislega ekkert um að segja en mun taka afstöðu til þeirra þegar þau koma inn og þá ef.