136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var alveg gáttaður á ræðu hv. þingmanns og þeim sleggjudómum sem þar komu fram, sjálfstæðismenn þetta og sjálfstæðismenn hitt, valdastólum stýrt frá Valhöll o.s.frv. Ég vil taka fram, frú forseti, að ég hef talið mig vera nokkuð sjálfstæðan og óháðan þingmann þannig að ég mótmæli þessu harðlega — og er ég samt sjálfstæðismaður.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um eitt vandkvæði. Hann hefur nefnilega svarið eið að stjórnarskránni og þar á meðal 79. gr.

Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Það er ekki hægt að breyta stjórnarskránni nema með þessum hætti. (Gripið fram í.) Allir þingmenn hafa svarið eið að stjórnarskránni og ef þeir samþykkja lög sem ganga á svig við þetta verða þeir bara að afsverja sig. Ég sé ekki neina lausn á þessum vanda aðra en þá að þessu ákvæði verði breytt í vor, þing rofið, kosið upp á nýtt og þá öðlast þau ákvæði gildi, fyrr ekki.

Ef menn ætla hins vegar að búa til nýtt stjórnlagaþing og að það semji nýja stjórnarskrá og hún tekur þá gildi eru menn í rauninni að segja að það sé bara ekkert að marka stjórnarskrár yfirleitt því að einhver aðili, einhver hópur eða einhver annar geti afnumið þær hvenær sem er.

Ég sé ekki eina einustu leið aðra en að menn breyti þessu ákvæði fyrst. Við verðum því miður að bera þessa virðingu fyrir löggjafanum og fyrir lýðræðinu, þetta er jú einu sinni stjórnarskrá okkar.