136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:05]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst dálítið athyglivert að hv. þm. Pétur Blöndal skuli standa hérna í dag og tala um að það þurfi að bera virðingu fyrir stjórnarskránni vegna þess að ég veit ekki betur en að í tvígang í vetur hafi verið sett lög sem ganga þvert gegn stjórnarskrá. Og ég veit ekki betur en að hv. þm. Pétur Blöndal hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu um þau mál. (PHB: Neyðarástand.)

Með því er ég ekki að segja að það sé í lagi, (PHB: Neyðarástand.) því fer fjarri. Af því að hv. þingmaður kallar hér fram í neyðarástand mundi ég halda að það neyðarástand stæði enn þá yfir og það væri mjög brýnt að leysa úr því. Þingið er óstarfhæft, hér á bekkjunum sitja 10 manns sem hafa allt framkvæmdarvaldið í höndum sér, meira og minna allt löggjafarvaldið og svo hafa 8 af þeim 10 sem sitja hér líka eftirlit með sjálfum sér.

Ég er ekki viss um það, hv. þm. Pétur Blöndal, að þessi málflutningur þinn hafi nokkra samúð en ég er sammála þér að við eigum að bera virðingu fyrir stjórnarskránni og ég efa það ekki að þeir lögfræðingar sem hafa bæði aðstoðað okkur framsóknarmenn við að skrifa þetta frumvarp, lesið það yfir hér í þinginu og víðar, hafi svör við þessum spurningum þó að ég hafi þau ekki hér í dag enda er ég bara búin að taka stjórnskipun 101, ef svo má segja.