136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg tilbúinn til að ræða þörfina fyrir einstakar efnisbreytingar á stjórnarskránni og það væri ágætt ef við værum að ræða það hér, að einhverjar tilteknar efnislegar tillögur væru til breytinga á stjórnarskránni, í einstökum köflum hennar eða greinum, sem væru undir. En við erum ekki að ræða það í dag. Ég hef aldrei gert lítið úr þörfinni fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar, þvert á móti. Ég sat í nefndinni sem ríkisstjórnin skipaði á sínum tíma til að vinna það verk og held að ég sé því ágætlega að mér um þörfina fyrir ýmsar breytingar og ég hef þá skoðun að það þurfi margt að skýra í stjórnarskránni og taka til endurskoðunar. En við erum ekki að ræða um það hér. Við erum að ræða hvernig skuli staðið að breytingum á stjórnarskránni í framtíðinni og ekkert síður hvort þörf sé á því að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni. Ef menn eru þeirrar skoðunar þá hljóta að vera einhver veigamikil stór atriði í stjórnskipuninni í dag sem menn telja að hafi brugðist, að hafi brostið. Mér finnst menn vera að gefa það til kynna að einhverjir slíkir brestir liggi nærri rót þess vanda sem við erum að fást við í dag í efnahagslegu tilliti. Þessu er ég einfaldlega ósammála. Ég held að það sé ekkert í grundvelli stjórnarskrárinnar eða því með hvaða hætti við flytjum valdið á milli einstakra þátta ríkisvaldsins sem hafi með það að gera hvernig fyrir er komið í efnahagsmálunum. Ég er ósammála því. Þess vegna finnst mér að menn geri of mikið úr þörfinni fyrir að endurskoða stjórnarskrána frá grunni, mér finnst það sjálfum. Ég hef setið stjórnskipunarkúrs í Háskóla Íslands og ég þykist vita að menn eru nokkurn veginn með það á hreinu hvað stendur í stjórnarskránni og hvernig eigi að túlka hana, þó að þar þurfi að taka ýmislegt til endurskoðunar.