136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nýju vinnubrögðin sem ég hef verið að gera athugasemdir við snúa að því að nú er verið að nálgast þetta viðfangsefni með nýjum hætti, þ.e. að ekki er lengur þörf fyrir samráð allra stjórnmálaflokka þegar verið er að huga að breytingum á stjórnarskránni. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við það. Það hefur þótt farsælast hingað til til breytinga á grundvallarlögum að leita samráðs allra stjórnmálaflokkanna og ég tel enn að það sé langheppilegast. Það er ástæðan fyrir því að ég hef frammi þessar athugasemdir og ég vék að því í fyrstu ræðu minni að langheppilegast hefði verið að fara þá leið sem stjórnarskrárnefndin lagði til varðandi breytingar á stjórnarskránni. Það hefði gefið nýju Alþingi tækifæri til að fara í vinnu við breytingar á stjórnarskránni án þess að það mundi í kjölfarið leiða til þess að boðað yrði til kosninga.