136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög erfitt að átta sig á málflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur ólíkt félögum sínum tekið nokkuð vel í þessar hugmyndir. Ég ætla héðan úr ræðustól Alþingis að skora á hv. þingmann að bjóða sig fram til forustu í Sjálfstæðisflokknum. Ég held að það væri nær lagi að þessi tónn kæmi frá forustu Sjálfstæðisflokksins. Það væri nær lagi.

Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson talar um að það hafi verið erfitt að koma fram breytingum á vettvangi þingsins þá er það alveg rétt. Þarsíðasta ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sprakk nærri því á því að við framsóknarmenn náðum ekki í gegn að sett yrði ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir sjávar væru sameign þjóðarinnar. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem lagðist gegn því og ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé hér í grímulausu hagsmunapoti fyrir óbreytt ástand. Það má engu breyta og það mega engir aðrir koma að því en sérstaklega kjörnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, svei mér þá.