136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Dag eftir dag stóðu fulltrúar íslensku þjóðarinnar á Austurvelli og börðu potta og pönnur. Aðeins með hávaða og mótmælum tókst að koma þáverandi ríkisstjórn í skilning um ástandið í samfélaginu. Það er nefnilega runnin upp ögurstund. Við þurfum að hefja endurreisn íslensks efnahagslífs eftir að þrír stærstu bankar landsins urðu gjaldþrota. Ekki er aðeins verið að krefjast róttækra aðgerða við efnahagsvandanum heldur einnig breyttrar stjórnskipunar landsins og nýrra áherslna í grundvallarréttindum borgaranna. Menn eru að krefjast raunverulegs lýðræðis. En hvað er lýðræði? Lýðræði er skilgreint annars vegar sem aðferð til að taka bindandi ákvarðanir og hins vegar sem tiltekin stjórnskipun. Engin ein skilgreining er til á lýðræði. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á að í raun mætti segja að lýðræði og stjórnarskrá okkar byggist á ákveðinni heimspeki. En undirliggjandi er einmitt sú heimspeki í fyrsta lagi að allir borgarar landsins eigi að hafa jafnan aðgang að valdinu og í öðru lagi að allir borgarar eigi að njóta ákveðins frelsis og réttinda.

Í mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar frá 1778 er lýst yfir að þar sem réttindi og valddreifing séu ekki tryggð sé í raun engin stjórnskipun. Ýmsir hafa jafnvel fullyrt, þar á meðal sú sem hér stendur, að ein af lykilástæðunum fyrir efnahagsörðugleikum landsins sé að óhófleg völd hafi safnast á fárra manna hendur. Páll Vilhjálmsson segir á vefsíðu sinni stuttu eftir bankahrunið, með leyfi forseta:

„Bankahrunið varð vegna þess að óhófleg völd söfnuðust á fárra manna hendur. Valdakjarninn hafði í fullu tré við ríkisvaldið og notaði fjölmiðla sína til að drepa gagnrýni á dreif ef hún var ekki beinlínis kæfð. Auðsáhrifin voru meðal annars þau að eftirlitsstofnanir skirrtust við að framfylgja hlutverki sínu.

Á rústum bankagjaldþrotsins þarf að verða til samfélagssátt. Liður í þeirri sátt er uppgjör við óreiðu síðustu ára. Sáttin horfir þó fyrst og fremst til framtíðar. Lykilatriði í henni er valddreifing.“

Það er ástæðan fyrir því að við framsóknarmenn settum fram sem eitt af þremur skilyrðum fyrir að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti að komið yrði á stjórnlagaþingi. Hlutverk stjórnlagaþingsins skyldi vera að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og hefja þannig endurreisn íslensks samfélags, endurreisn sem skyldi byggjast á nýjum vinnubrögðum, nýrri samfélagssátt og raunverulegri valddreifingu. Samhliða því kynntum við frumvarp okkar sem hér er lagt fram af þingflokki Framsóknarflokksins.

Við byggjum lýðræði okkar á stjórnarskrá landsins, æðstu lögum Íslands. Núverandi stjórnarskrá var samþykkt sem lög nr. 33/1944 á Alþingi við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum þann 17. júní 1944. Árið 1944 samþykkti Alþingi að fella niður sambandslögin við Danmörku, samþykkja nýja stjórnarskrá og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tveggja. Í maí 1944 gekk íslenska þjóðin til kosninga og greiddu um 97% atkvæði með sambandsslitum og 95% samþykktu nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið.

Í stjórnarskrám lýðræðisríkja er að finna ákvæði um stjórnarform ríkisins og grundvallarreglur lýðræðisins. Þar er einnig að finna ákvæði um grundvallarréttindi borgaranna og hafa þau jafnan færst framar í nýrri stjórnarskrám en þeim eldri. Í þriðja lagi er að finna ákvæði um æðstu handhafa ríkisvaldsins, þ.e. þjóðhöfðingja, ríkisstjórn, þing og dómstóla og samspil þeirra á milli.

Algjör lykilþáttur í að viðhalda lýðræðinu er að koma í veg fyrir að vald safnist á of fárra manna hendur. Vald meiri hluta er eitt af einkennum lýðræðis en alltaf með þeim mikla fyrirvara að meiri hlutinn geti ekki mismunað eða misbeitt valdi sínu gagnvart minni hlutanum. Annar lykilþáttur í uppbyggingu lýðræðis er hvernig við veljum fulltrúa á sanngjarnan máta. Val á fulltrúum tengist síðan upplýsingagjöf til borgaranna, þ.e. tjáningarfrelsinu, þannig að hver og einn hafi rétt til að tjá sig og koma á framfæri skoðunum sínum.

Umræða hefur verið um að stjórnlagaþing sé of dýrt og birtist frétt þess efnis í Fréttablaðinu að ýmsir stjórnarliðar hefðu áhyggjur af kostnaði og gætu þess vegna hugsanlega ekki stutt málið. Ekki var vitnað í neina stjórnarliða í þessari frétt og ég á erfitt með að trúa því að þetta sé rétt. Menn hljóta að vera tilbúnir að kosta ýmsu til að tryggja lýðræði í landinu. Eitthvað hlýtur lýðræðið að mega kosta þegar samsöfnun valds og jafnvel misbeiting þess hefur kostað okkur svona gífurlega mikið. Hljótum við ekki að vera tilbúin til að leggja talsvert á okkur til að tryggja raunverulegt lýðræði hér á landi?

Í frumvarpi okkar, sem við ræðum hér, sjáum við fyrir okkur að kosnir verði á landsvísu 63 fulltrúar á stjórnlagaþing, hver og einn kjósandi hafi allt að sjö atkvæði og geti þannig valið allt að sjö fulltrúa á þingið. Þetta er hugsað til að ná sem mestri dreifingu á fulltrúunum. Ráðherrar, þingmenn og varaþingmenn ásamt forseta Íslands verða ekki kjörgengir. Kosningin sjálf gæti jafnvel hugsanlega farið fram samhliða alþingiskosningum til að spara peninga eða í haust ef tími reynist ekki nægur. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir svaraði því játandi að lýðræðið mætti kosta þegar hún lagði fram frumvarp sitt 1995–1996, um stjórnlagaþing þar sem kjósa ætti 41 fulltrúa, í sambærilegum kosningum og við leggjum hér til. Því er það eitt af því sem taka þarf afstöðu til í þinglegri meðferð hver sé besta fulltrúatalan hvað varðar ásættanlegan fjölda lýðræðiskjörinna fulltrúa versus kostnað við stjórnlagaþingið miðað við það efnahagsástand sem við fáumst nú við. Við teljum einnig geysilega mikilvægt að stjórnlagaþingið muni ekki byggjast á venjulegum lögum heldur verði hluti af stjórnarskránni. Hugsunin með því er að þannig verði tryggt sjálfstæði stjórnlagaþingsins gagnvart Alþingi og að við stjórnmálamenn munum ekki geta skipt um skoðun ef okkur allt í einu ekki hugnast ekki niðurstaða stjórnlagaþingsins. Í þessu máli höfum við alþingismenn ítrekað sýnt að hagsmunir okkar virðast vera of miklir til að við getum farið af alvöru í raunverulegar breytingar á stjórnarskránni og þá sérstaklega hvað varðar stjórnskipun landsins.

Í 65 ár hefur staðið til að endurskoða stjórnarskrána, sérstaklega einmitt þá þætti sem varða stjórnskipun landsins, en árangurinn er nákvæmlega enginn. Þegar ákveðið var að slíta sambandinu við Danmörku var skipuð sérstök stjórnarskrárnefnd. Hún lagði til að núverandi stjórnarskrá yrði að stórum hluta samhljóða stjórnarskránni frá 1920 fyrir utan það að felld voru út ákvæði um konung og sett inn í staðinn ákvæði um forseta. Einnig voru gerðar minni háttar breytingar hér og þar, meðal annars breytingar sem sneru að takmörkun á synjunarvaldi forseta. Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem ríkti við þá afgreiðslu stjórnarskrárinnar árið 1944 var að hún náði einmitt til þessara mjög afmörkuðu þátta. Eftir að stjórnarskráin hafði verið samþykkt starfaði stjórnarskrárnefndin áfram að heildrænni skoðun hennar og þegar starfsemi hennar lognaðist út af árið 1947 var ný nefnd skipuð. Sú nefnd skilaði síðan engu áliti. Í dag hefur verið farið yfir það hvernig vinna sem tengst hefur þessum umfangsmiklu breytingum á stjórnarskránni gegnum hverja nefndina á fætur annarri hafi ekki skilað neinum árangri.

Í ársbyrjun 2005 skipaði þáverandi forsætisráðherra níu manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána. Henni var ætlað að skila tillögum um breytingar á stjórnarskránni þannig að hægt yrði að leggja fram frumvarp í árslok 2006. Það gekk hins vegar mjög erfiðlega að ná samkomulagi í nefndinni um breytingar og er það eitt sorglegasta dæmið um það hversu erfitt stjórnmálamenn hafa átt með að breyta stjórnarskránni. Það eina sem menn urðu þarna sammála um var hvernig ætti að standa að þessari breytingu, en öllu sem tengdist efnislegum breytingum á stjórnarskránni var ýtt til hliðar. Menn voru sem sagt ósammála um allt annað og voru samt sem áður — alla vega miðað við þær upplýsingar sem ég hef — lítið að ræða umfangsmiklar breytingar á stjórnskipun landsins. Hins vegar var mun frekar verið að ræða atriði sem varða auðlindir þjóðarinnar og þjóðaratkvæðagreiðslur. Mig minnir að eflaust hafi einhverjir sjálfstæðismenn jafnvel getað hugsað sér að takmarka vald forseta, sérstaklega hvað varðar það að geta synjað málum og vísað í þjóðaratkvæðagreiðslur, hafandi í huga synjun hans á fjölmiðlafrumvarpinu.

Það er hins vegar ekki þannig að þingmenn hafi ekki haft áhuga á að breyta stjórnarskránni. Í gegnum tíðina hafa þingmenn borið upp bæði þingsályktunartillögur og frumvörp um einstakar breytingar og heildarendurskoðun á stjórnarskránni og nokkrar þeirra, sjö minnir mig af um 80, hafa farið í gegn. Flestar breytingar hafa verið gerðar á kafla III um þingkosningar — það segir kannski hvar áhugasvið þingmanna hefur legið — kafla IV um störf Alþingis og kafla VII um mannréttindi. Eini kaflinn sem hefur verið látinn ósnertur er kafli I um stjórnskipun og kafla V um dómsvaldið hefur aðeins verið breytt lítillega.

Síðan var árið 1991 kafla II um forsetakosningar, forseta og ríkisstjórn breytt til að endurspegla afnám deildaskiptingar Alþingis og kafli VI um kirkju og trúfrelsi var endurskoðaður árið 1995. Tvisvar áður hefur tillaga um stjórnlagaþing verið borin fram á Alþingi, fyrst af Páli Zóphóníassyni, þingmanni Framsóknarflokksins, árið 1948 og svo aftur af hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1995–1996.

Það hefur aldrei náðst sátt á Alþingi Íslendinga um að fara í þessa viðamiklu vinnu og því teljum við nauðsynlegt að taka þetta úr höndum Alþingis og færa í hendur þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Hvernig verður síðan staðið að því að semja nýja stjórnarskrá og hvaða áherslur verða ofan á er ekki okkar að ákveða. Við höfum þó nefnt nokkra punkta í greinargerð með frumvarpinu sem að okkar mati þyrftu eða ættu hugsanlega að koma til álita. Þar á meðal eru jafnróttækar hugmyndir og afnám þingræðis og bein kosning handhafa framkvæmdarvalds, þ.e. annaðhvort forseta eða forsætisráðherra eða sameinuð þessi tvö hlutverk, eða að menn haldi sig við þingræðisregluna en styrki þingræðið til dæmis með því að einn þriðji hluti þingmanna geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og að ráðherrar geti ekki setið á þingi. Auk þess tel ég að skýra þyrfti mun betur takmörkun mismunandi valdþátta og eftirlit þeirra hver með öðrum. Þáttur í því gæti verið takmörkun kjörtímabils þingmanna og seturéttar ráðherra. Mér finnst hugmyndir um aukinn möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu og frumkvæði að löggjöf frá almenningi einnig mjög áhugaverðar.

Annað atriði sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir er ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sem og framsal valds til alþjóðastofnana.

Allar þessar hugmyndir og þær hugmyndir, sem við sjáum fyrir okkur að stjórnlagaþingið mundi fjalla um og taka afstöðu til og síðan í framhaldi þjóðin, verða að byggja á þessum tveimur grunngildum sem ég minntist á áðan um það hvað lýðræði er, þ.e. að allir borgarar landsins eigi að hafa jafnan aðgang að valdinu og að allir borgarar eigi að njóta ákveðins frelsis og réttinda. Það gerum við ekki nema við tryggjum valddreifingu og skýrt og ótvírætt sjálfstæði hinna þriggja meginþátta ríkisvaldsins, löggjafarvaldsins, dómsvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Aðeins þannig tel ég að nýtt Ísland muni geta reist sig eins og fuglinn Fönix á grunni hugmyndafræði um raunverulega samvinnu, sanngirni og valddreifingu.