136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi fá að koma í ræðustól og taka fram að hvað þennan þingmann varðar alla vega hefur hann haft mikinn áhuga á þrískiptingu valdsins og því sem varðar stöðu löggjafarvaldsins, sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu og einnig stöðu dómsvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hann hefur skrifað ýmsar greinar og fjallað um það í fjölmiðlum nánast frá því að ég byrjaði í pólitík.

Það sem ég hef haft miklar áhyggjur af er hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið gegn breytingum, sérstaklega á þeim þáttum sem varða valddreifingu og stjórnskipunina. Það er mín skoðun. Vegna þess að búið var að safna valdi á hendur svo fárra gat ríkisvaldið varla brugðist öðruvísi við en bara með því að sitja og horfa á það hrun sem varð í október. Valdið hefur safnast á hendur mjög fárra manna og þegar hv. þm. Sturla Böðvarsson talar um að við þurfum að sýna meiri fyrirhyggju í sambandi við þetta mál, spyr ég: Hvernig getum við sýnt meiri fyrirhyggju en við erum höfum gert með því að berjast við að koma einhverjum breytingum í gegn í 65 ár?

Þegar við ræðum sérstaklega um vald forseta tel ég að forsetinn hafi þurft að grípa til aðgerða vegna þess hversu mikill yfirgangur framkvæmdarvaldsins hefur verið. Ef við minnumst t.d. á fjölmiðlafrumvarpið var ekki hlustað á athugasemdir sem fram komu innan þingsins og framkvæmdarvaldið tróð gjörsamlega á löggjafarvaldinu. Það gaf því ekki færi til þess að gera þær breytingar sem nauðsynlegar hefðu verið til þess að sátt væri um það mál.

Síðan var raunar enn á ný stigið á stjórnarskrána með því að synja því að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og segir í stjórnarskránni þó að það sé mun óskýrara en ég hefði kosið. (Forseti hringir.) En ég tel að hræðsla sjálfstæðismanna sem fram hefur komið hér sé (Forseti hringir.) nákvæmlega sama hræðslan og við sjáum gagnvart ESB. (Forseti hringir.) Þetta snýst um að halda völdum.