136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[19:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um að það sé ekki góður svipur á þessari lagasetningu held ég að það sé kannski helst nafngiftin sem mönnum finnst sérkennileg, þ.e. að það koma til með að standa eftir í lagasafninu lög sem heita „lög um afnám laga“, en þau hafa sjálfstætt gildi því að í fyrsta lagi afnámu þau annars vegar tiltekin lög og í öðru lagi varðveita þau tiltekin ákvæði sem hafa gildi og þurfa að vera í lögum til þess að ljóst sé t.d. að menn geti ekki verið á tvöföldum launum. Þau geyma líka sólarlagsákvæðin gagnvart hæstaréttardómurum og forseta Íslands, þess vegna er þetta svona úr garði gert.

Varðandi kostnaðarútreikninga skal það fúslega viðurkennt að ég hef ekki lagst ofan í þá sjálfur að neinu ráði, enda hef ég takmarkaða þekkingu til þess. Hér er byggt á tryggingarfræðilegu mati sem fjármálaráðuneytið hefur unnið eða aflað og ég get lítið annað en vísað til þess, að þar eru sérfræðingar á ferð sem hafa gert þessa útreikninga og komast að þeim niðurstöðum sem hér eru reiddar fram. Ég veit að hv. þingmaður er alkunnur áhugamaður um þessi fræði enda vel að sér á því sviði og sjálfsagt mál að fara ofan í það í hv. þingnefnd ef mönnum sýnist þess þurfa.

En um það sem efnislega er þarna á ferðinni þarf ekkert að deila, þetta léttir að sjálfsögðu skuldbindingum og umtalsverðum greiðslum af ríkissjóði í framtíðinni og tryggir að þessi kjör verði algerlega stillt saman við aðra starfsmenn sem taka lífeyri samkvæmt lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Það fyrirkomulag sem er til staðar, eins og við þekkjum, á sér langa sögu.

Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi um stöðu lífeyrissjóðanna almennt eða almennu lífeyrissjóðanna er ég mér vel meðvitaður um að þeir hafa orðið fyrir áföllum og töpum og eru að skoða stöðu sína. Það er m.a. rætt í samráði við ráðuneytið sem fer með þau mál. En ég vonast til þess að til skerðinga þurfi ekki að koma, a.m.k. að svo stöddu, alla vega ekki fyrr en á síðari hluta ársins og helst ekki fyrr en um áramót og þá vonandi sem allra minnst.