136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[19:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað margt sem hefur áhrif á stöðu lífeyrissjóðanna og lífeyrissjóðakerfisins og því miður er auðvitað ekki að öllu leyti ljóst enn þá hve mikil töp þess kerfis verða tengd bankahruninu og þeim hörmungum sem gengið hafa yfir Íslendinga í efnahagsmálum, að verulegu leyti manngerðum hörmungum sem hv. þingmaður veit mætavel um og stendur nærri ásamt sínum flokki. Það er t.d. ekki alveg ljóst hvernig lífeyrissjóðirnir eiga eftir að koma út úr ýmsum uppgjörsmálum sem tengjast í raun bæði gamla og nýja bankakerfinu og fleira í þeim dúr. Það er verið að skoða hluti eins og það hvernig lífeyrissjóðirnir skuli virða örorkubyrðar sínar, hvort það sé rétt að gera með þeim hætti sem reiknað er í dag, núvirkt eða framvirkt, og fleiri hlutir geta átt eftir að hafa áhrif á það hversu mikil eða vonandi verður hægt að segja hversu lítil raunveruleg skerðingarþörf þeirra verður. Auðvitað óttast maður að það verði eitthvað en þá er líka rétt að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir nutu mjög góðrar ávöxtunar á löngu árabili á fé sínu þannig að sú skerðing kemur frá mjög hárri viðmiðun, ef svo má að orði komast, sem myndaðist á árabili mjög góðrar ávöxtunar þar sem sjóðirnir gátu látið eftir sér að auka réttindi jafnvel umfram það sem áætlanir höfðu áður gert ráð fyrir. En skoðað í heildarsamhengi verður náttúrlega að hafa myndina alla í huga.

Varðandi verðtryggingu þarf hv. þingmaður ekkert að óttast að það standi til af minni hálfu að fara að beita mér fyrir einhverri kollsteypu í þeim efnum. Ég lýsti á borgarafundi í gær almennum viðhorfum mínum til þessa máls sem hafa heldur styrkst af lífsreynslu minni og trúlega fleiri undanfarna mánuði, að um leið og aðstæður leyfa eigi það að vera markmið okkar til framtíðar litið að fara að reyna að vinda eitthvað ofan af þessari víðtæku verðtryggingu í samfélaginu. Það þýðir ekki að fótunum verði kippt undan því sem fyrir er á nokkurn hátt og þeim mun betur sem okkur tekst að ná niður verðbólgu og innleiða stöðugleika þeim mun minni áhrif hefur það í sjálfu sér hvort fjárskuldbindingar eru verðtryggðar eða óverðtryggðar.