136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:01]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Skammt er á milli umræðna um eftirlaun og launakjör alþingismanna þessa mánuðina. Er engu líkara en að sé stærsti vandi þjóðarinnar sé fólginn í þeim kjörum sem alþingismenn hafa haft á undanförnum árum. Ef miðað er við hávaðann í forustumönnum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja virðist hámark alls óréttlætis á Íslandi vera fólgið í þeim kjörum sem þingmönnum hafa verið ákvörðuð, hvort sem það eru launakjör eða eftirlaunakjör.

Gagnrýna má ýmislegt sem er að finna í þeim ákvörðunum og eftirlaunalögin frá 2003 voru auðvitað mjög mikið gagnrýnd en það fer kannski minna fyrir þeirri staðreynd — ég heyrði ekki að hæstv. ráðherra hefði nokkurt orð á henni í framsöguræðu sinni — að frumvarpið í desembermánuði 2003 var samkomulagsmál allra þingflokka, lagt fram með stuðningi formanna allra stjórnmálaflokkanna og að sögn handsalað m.a. við formann Vinstri grænna, þann sem nú situr í stóli hæstv. fjármálaráðherra. Í því voru ákvæði sem urðu umdeild og þá hrukku sumir frá borði eins og fúaspýtur og sáust ekki í þingsölum það sem eftir lifði umfjöllunar um málið og framsögu- og flutningsmenn úr ýmsum flokkum drógu sig af málinu og þóttust hafa verið blekktir.

Það er eðlilegt að menn taki sér svigrúm til að skipta um skoðun á einhverju máli komi fram nýjar upplýsingar sem ekki lágu fyrir þegar þeir tóku sína upphaflegu ákvörðun. Í þessu máli var því ekki að heilsa. Það var einfaldlega samkomulag um efnisatriði málsins sem menn guggnuðu undan þegar hávaðamaskínurnar í Alþýðusambandi Íslands og BSRB fóru af stað. Sú gagnrýni sem þá kom fram var ekki öll að ástæðulausu því að það voru auðvitað atriði sem voru gagnrýniverð, fyrst og fremst þau atriði sem lutu að eftirlaunakjörum forsætisráðherra.

Engu að síður var kjarni málsins sá í eftirlaunafrumvarpinu 2003, sem varð síðan að lögum sem núverandi hæstv. fjármálaráðherra leggur hér til að verði afnumin, að það urðu engar stórvægilegar breytingar á kjörum alþingismanna og ráðherra, forseta Íslands eða hæstaréttardómara, engar. Stærstu réttindaákvæðin hvað varðar ráðherra voru þau að þeir áunnu sér 6% réttindi á hverju ári í starfi, sem er auðvitað mun meira en almennt gerist. Í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna er réttindaávinnslan um 2% á ári og heldur minni hjá almennu lífeyrissjóðunum. Það verður því mun hraðari ávinnsla hjá ráðherrum en gengur og gerist.

Þetta voru ekki ný ákvæði, virðulegi forseti, þau ákvæði komu í lög árið 1965. Hæstv. fjármálaráðherra sat í ríkisstjórn á árunum 1988–1991 undir þessari réttindaávinnslu og fann ekkert að því þá og hefur ekki beðist undan því að þiggja þá réttindaávinnslu svo mér sé kunnugt um. Hann stóð upp úr ráðherrastólnum vorið 1991 án þess að hafa nokkur orð um það mikla óréttlæti sem þessi réttindaávinnsla hafði verið þjóð og þingi. (Gripið fram í: 30 ár.) Hann fann ekki upp þetta mikla óréttlæti fyrr en árið 2003 eða 2004.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég kann ekki að meta svona tvöfeldni eða heigulshátt í umfjöllun um mál þar sem verið er að vega að þinginu sjálfu, ég kann ekki að meta það. Það er eðlilegt að ræða kjör þingmanna og gagnrýna það sem er gagnrýnivert en það er ekki eðlilegt að forustumenn stjórnmálaflokka vegi að þinginu sjálfu.

Skoðum nú hver staðan er ef við berum saman þingið við einhverja aðra sambærilega hópa. Hvað gerir hæstv. fjármálaráðherra þegar hann þarf að ráða sér skrifstofustjóra? Hann borgar honum kaup ásamt fastri yfirtíð þannig að skrifstofustjórinn fái 680–750 þús. kr. í laun á mánuði. Hæstv. fjármálaráðherra leggur hér til að kjör þingmanna verði að öllu leyti eins og hjá þessum skrifstofustjóra að öðru leyti en því að þeir fá 520 þús. kr. Hækka þarf laun alþingismanna um 40% til að þau verði hin sömu og laun skrifstofustjórans sem hæstv. ráðherra mun ráða, komi til þess á komandi mánuðum. (Gripið fram í: Það er svo merkilegt starf.) Það má vel vera að það sé merkilegt starf, ég dreg það ekkert í efa. En ætla menn að þingið verði mannað fólki sem hefur kunnáttu, færni og kjark til að standa uppi í hárinu á embættismönnum ríkisins og ráðherrum ríkisstjórnarinnar þegar því er borgað 40% lægri laun?

Hvað eru forustumenn stjórnmálaflokkanna að gera? (Gripið fram í: Og BSRB.) Eða forustumenn BSRB eða forustumenn ASÍ? Þeir eru að vinna að því að veikja Alþingi vegna þess að þeir vilja hafa veikt Alþingi því að það veitir þeim meiri völd. Það snýst um það, virðulegi forseti, að mínu viti.

Hvað segir forseti Alþýðusambands Íslands, sem oft er búinn að hrópa í fjölmiðlum og gera hróp að alþingismönnum, þegar hann var spurður um eigin kaup og kjör? Það eru ekki 520 þús. kr., virðulegi forseti, nei, það eru rúmar 900 þús. kr. Þá var hann spurður um réttlætið í því að vera svona miklu, miklu hærri en alþingismenn og þá var svarið: „Ja, svona gerast nú kaupin á eyrinni.“ Þetta er ekki hægt, virðulegi forseti.

Lítum aðeins á þetta, kjör alþingismanna eða hvers annars samanstendur af þeim launum sem menn fá og þeim réttindum sem menn vinna sér inn. Vissulega hafa eftirlaunaréttindi alþingismanna og ráðherra verið betri en annarra, það er alveg rétt. En laun þeirra hafa líka verið lægri en sambærilegra stétta sem menn hafa borið sig saman við, m.a. vegna þess að eftirlaunaréttindin hafa verið betri. Þau hafa þó ekki verið ákvörðuð neitt öðruvísi en gengur og gerist í erlendum ríkjum. Með eftirlaunafrumvarpinu 2003 fylgdu upplýsingar um hvernig þetta væri í ýmsum erlendum ríkjum. Þar kemur margt fróðlegt fram, aðallega þó það að eftirlaunaréttindi þingmanna og ráðherra eru rífleg í þessum löndum, hvort sem það er í Finnlandi, Danmörku, Noregi, Þýskalandi eða Svíþjóð. Í Svíþjóð og Noregi var þetta þannig, og ég býst við að það sé svo enn, að þingmenn áunnu sér full eftirlaunaréttindi eftir tólf ára þingsetu. Það veldur ekki hneykslan í þeim löndum. Hvers vegna skyldi það vera? Eru Norðmenn og Svíar með annað siðferðismat en við Íslendingar? Nei, auðvitað ekki. Það er vegna þess að menn horfa á málið í heild sinni. Ef kjörin í heild sinni eru sanngjörn og eðlileg amast fólk ekki við því. Þannig er staðan á Íslandi að kjör alþingismanna og ráðherra í heild sinni hafa verið sanngjörn að flestu leyti og engin ástæða til að vera með hávaða. Lýðskrum og upphrópanir sem gengið hefur á á undanförnum árum og sú framganga öll hefur algjörlega gengið fram af mér, virðulegi forseti. Það segir meira að segja í frumvarpinu enn einu sinni, þó að margbúið sé að hrekja það, í greinargerð á bls. 5, með leyfi forseta:

„Með lögum nr. 141/2003 voru gerðar gagngerar breytingar á eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar og þeim veitt betri eftirlaunaréttindi en almennt tíðkast.“

Þetta er ósatt, virðulegi forseti, og það veit hæstv. fjármálaráðherra. Það var ekki með lögunum 2003, það var með lögunum 1965. Hvað á það að þýða, virðulegi forseti, að bera ósannindi á borð hér í þingsal? Af hverju getur hæstv. fjármálaráðherra ekki bara farið fram með málið með sannleikann að vopni, (Gripið fram í.) eins mikla áherslu og hann hefur lagt á það í öðrum málum að leita sannleikans? Honum hefur eitthvað mistekist að finna hann í þessu máli. Auðvitað á sannleikurinn að koma fram í þessu máli sem öðrum, það á ekki að fela hann.

Ég er löngu hættur að gera mér rellu út af því hvort eftirlaunakerfið eigi að vera svona eða hinsegin, þessi sjóður eða hinn. Það sem ég segi bara, virðulegi forseti, er: Menn eiga að hafa launakjör alþingismanna og ráðherra þannig að þau séu góð en þau séu hófleg. Þá er þetta í lagi. Það er ekki hægt að halda því fram að launakjör alþingismanna séu óhófleg í samanburði við þau launakjör sem ráðherrar hafa samþykkt hjá starfsmönnum sínum, hvort sem þeir heita skrifstofustjórar, sendiherrar eða eitthvað annað. Eða forstjórar ríkisfyrirtækjanna, því að samkvæmt úrskurði kjararáðs eru laun embættismanna ríkisins allt upp í 1.638.885 kr. miðað við töflu í maí 2008, sem er u.þ.b. þrisvar sinnum hærri fjárhæð en þingfararkaupið var þá. Getur nokkur maður haldið öðru fram en að laun alþingismanna séu hófleg í þessum samanburði? Þau eru það.

Ef rýra á kjörin eins og menn hafa verið að gera með því að fara með eftirlaunakjörin mjög langt niður eins og er verið að gera, verða menn að hækka launin til þess að halda samsvarandi kjörum. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er það ekki meiningin? Er það meining hans að þeir sem kosnir eru af þjóðinni til að sitja á þingi eigi að vera á hluta þeirra launa sem honum finnst rétt að borga starfsfólki sínu í fjármálaráðuneytinu? Er það svo, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hafi ákveðið að þingmenn skuli bara vera hlutastarfsmenn samanborið við venjulega skrifstofustjóra í ráðuneytunum? Það gengur ekki, virðulegi forseti, það bara gengur ekki. Menn fá ekki öflugt þing sem getur sinnt hlutverki sínu að vera löggjafarvald — athugið, virðulegi forseti, löggjafarvald, ekki löggjafarþjónn ráðherranna, heldur löggjafarvald — sem getur boðið framkvæmdarvaldinu birginn og staðið á sínu.

Það má ekki fara svo með starf þingmannsins að það hætti að vera eftirsóknarvert og við hættum að fá fólk til að vilja koma hingað og sem kjósendur vilja kannski allra helst að leggi sig fram um að vinna á þingi. Við megum ekki ganga þannig frá málum að löggjafarvaldið verði hornreka í þessu samhengi. Mér finnst að gengið hafi verið allt of langt í að rýra stöðu þingsins í kjörum miðað við það sem mönnum stendur til boða annars staðar, hærri laun, öruggara starf og annað slíkt. (Gripið fram í.) — Svo ég tali ekki um umtalið. Það er búið að rýra kjörin og það sem hæstv. ráðherra nefndi nú ekki, eftirlaunakjör alþingismanna voru skert með lögunum árið 2003 og þau voru skert aftur með lögunum í desember síðastliðnum. Skerðingin nemur mjög háum prósentum ef út í það er farið.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, gera alvarlegar athugasemdir við útreikningana í greinargerð um kostnað. Ég held að þeir séu mjög ótrúverðugir í ljósi þeirra gagna sem hér hafa verið lögð fram áður um kostnaðarbreytinguna árið 2003.