136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa því aftur yfir að ég er hlynntur frumvarpinu, þetta er hænuskref í átt til réttlætis, en bara hænuskref.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Nú er það svo að iðgjald í almennu lífeyrissjóðina sem flestir kjósendur hans eru í, sjómenn á Raufarhöfn og bændur í Bárðardal o.s.frv., er 4% plús 8% atvinnurekandans. Í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, A-deild, er iðgjaldið hins vegar enn þá 15,5%, 4% plús 11,5%. Það er sem sagt 30% hærra iðgjald, frú forseti, og 30% meiri réttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins — ég er að byrja, já.

Það er sem sagt 30% hærra iðgjald sem hv. þingmaður ætlar ríkinu að borga fyrir sig í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, samanlagt 30% hærra iðgjald, en bóndinn og sjómaðurinn, eða atvinnurekandi hans, greiða í lífeyrissjóð og þar af leiðandi 30–40% meiri réttindi.

Hvernig ætlar hv. þingmaður, eftir þessa ræðu um forréttindi og að ekki eigi að skerða kjör aldraðra og allt svoleiðis, að horfast í augu við þá sem fá svona miklu lægri réttindi en hann á hverju ári, 1,4% í staðinn fyrir 1,95%?

Svo er það að ekki eigi að skerða kjör aldraðra og öryrkja. Ég er ansi hræddur um að það gerist í haust, (Gripið fram í.) alveg sama hvað hv. þingmaður segir. Sjóðirnir lentu í miklu áfalli og hv. þingmaður mun þurfa að horfa á kjósendur sína skerta — en hann er ekki skertur af því að hann er í forréttindasjóði og þar verður iðgjaldið hækkað, iðgjald ríkisins, þ.e. skattar á hina. Hvað segir hv. þingmaður um þetta þegar hann horfir framan í fólk sitt og segir að ekki megi skerða kjör aldraðra og öryrkja?