136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var merkilegt andsvar að því leyti til að ég held að ég og hv. þingmaður séum efnislega sammála um að jafna eigi réttindin og draga úr forréttindunum. Það var inntak ræðu minnar hér áðan ef hv. þingmaður hefði lagt betur við hlustir. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður segir að ég hafi sagt áðan að kjör aldraðra og öryrkja mættu ekki skerðast. Það er ekki til vinsælda fallið að segja það, en ég tel — og tók það mjög skýrt fram í ræðu minni áðan — að allir verði fyrir kjaraskerðingu. Allir verða fyrir lífskjaraskerðingu á næstu mánuðum og það er rangt af stjórnmálamönnum að segja annað.

Hins vegar sagði ég áðan að ég teldi forgangsmál að byrja á þeim sem hafa hæstar tekjur og mest réttindi. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé mér sammála um að frumvarpið sem ég hældi hér áðan sé óneitanlega skref í þá átt að jafna þau réttindi.

Þegar við framsóknarmenn horfðum upp á það í fjárlagaumræðunni að síðasta ríkisstjórn var að skerða kjör aldraðra og öryrkja sögðum við hér á þingi að byrja ætti á því að skerða laun þeirra ríkisstarfsmanna og æðstu embættismanna sem hafa hæstu launin og mestu réttindin. Þess vegna studdum við breytingar á lögum um kjararáð fyrir áramótin og þess vegna stöndum við heils hugar að því að jafna réttindi á milli opinberra starfsmanna og alþingismanna. Hins vegar þurfum við í framhaldinu að skoða leiðir til að jafna kjörin á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum, það er á hreinu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvers vegna hann hafi ekki staðið að því með okkur í (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunni að samþykkja þá breytingartillögu sem við, framsóknarmenn og vinstri grænir, lögðum fram við frumvarp ríkisstjórnarinnar um óréttmætið. Hvers vegna?