136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að mjög erfitt er að horfast í augu við það að einstaklingar, fólk á vinnumarkaði, búi við mjög ólík lífeyrisréttindi, eins og hv. þingmaður fór réttilega yfir. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að bóndinn í Bárðardal er ekki hálaunamaður (Gripið fram í: En sjómaðurinn?) og er ekki ofsæll af kjörum sínum. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður talar hér um sjómanninn og við getum þá talað líka um sjómannaafslátt og fleira í þeim efnum. Við þurfum að horfa heildstætt á þessi mál.

Ég trúi ekki að hv. þingmaður vilji kollvarpa öllum launakerfum og lífeyrisréttindum sem ólíkir hópar hafa áunnið sér án þess að við reynum að gera það í sæmilegri sátt hér á Alþingi Íslendinga. Til þess að svo megi verða er lágmarkið að menn byrji á því að ræða saman.

Hv. þingmaður getur haldið margar ágætar ræður fullar af heilagri réttlætiskennd hér á Alþingi en ég vil minna hann á að flokkur hans og líka Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin hafa ekki á undangengnum hátt í 20 árum náð að leiðrétta þennan mismun. Til þess að menn fari í þá vinnu að reyna að jafna kjörin þarf að setja af stað eitthvert samráðsferli. Það var ekki stæll síðustu ríkisstjórnar að leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins eða opinbera starfsmenn. Þegar við framsóknarmenn lögðum fram tillögur um að menn mundu stofna slíkan samráðsvettvang við upphaf efnahagshrunsins var ekkert á það hlustað af þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ef við hefðum náð að koma slíkum samráðsvettvangi á fót væri ástandið hugsanlega ekki með þeim hætti sem það er í dag, en því miður er það þannig.