136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér gamalkunnugt mál sem hefur verið mikið í umræðu á þinginu, ekki bara í tengslum við setningu laganna 2003 heldur ætíð síðan og síðast í vetur þegar við gerðum breytingar á eftirlaunaréttindum þeirra sem frumvarpið tekur til.

Mig langar til þess að koma að örfáum athugasemdum við 1. umr. málsins. Ég vil byrja á því að segja, áður en ég fer nánar inn í efnisatriðin, að mér finnst að þingið hljóti að þurfa að horfa til þess hvort heiti laganna taki ekki breytingum. Hæstv. fjármálaráðherra vék að því í framsöguræðu sinni að það væri dálítið ankannalegt að þessi lög mundu standa sem lög um afnám laganna frá 2003 og ég vil taka undir það. Ég tel að þingið eigi að taka það til skoðunar vegna þess að fyrst og fremst eru þetta lög til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og að mínu áliti eiga þau að bera það heiti.

Varðandi efnisatriði málsins vil ég fyrst og fremst segja að verið er að gera mikla grundvallarbreytingu, breytingu sem ekki einungis lýtur að því að afnema lögin frá 2003 heldur ganga þau miklu lengra. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur í máli sínu aðeins rakið aðdragandann að lagasetningunni frá því ári og hvað bjó þar að baki. Aðeins er komið inn á það í athugasemdum við þetta frumvarp. Til að hnykkja á því var því frumvarpi ætlað að jafna kjör alþingismanna en þó sérstaklega ráðherranna við lífeyrisréttindi annarra æðstu embættismanna, þ.e. hæstaréttardómara og forseta. Breytingarnar í því frumvarpi fólust fyrst og fremst í því að auka við réttindi ráðherra, þar með talið forsætisráðherra, þannig að þau voru eftir lagasetninguna sambærileg þeim sem giltu um aðra æðstu embættismenn og þá sérstaklega hæstaréttardómara og forseta.

Áður höfðu gilt mun ríkari réttindi í þessu tilliti fyrir bæði ráðherra og þingmenn en almennt um opinbera starfsmenn og þess vegna er ekki hægt að segja að með lögunum frá 2003 hafi verið komið á einhverju forréttindakerfi heldur var áherslan öll á að jafna réttindi æðstu embættismannanna.

Hér er hins vegar stigið það skref að afnema með öllu ríkari lífeyrisréttindi þessara hópa, þingmanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta, en almennt gildir um opinbera starfsmenn.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að tilteknar hliðar á eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar mæta ekki almennum skilningi í þjóðfélaginu. Við því þarf að bregðast, meðal annars til að varðveita nauðsynlegt traust milli almennings og ráðamanna.“

Ég sýni því sjónarmiði sem þarna er teflt fram skilning og hægt er að fallast á að það hafi verið mjög mikill ágreiningur um þessi réttindi og að við því þurfi að bregðast með einhverjum hætti. Það gerði ríkisstjórnin, sem nú er nýfarin frá, vissulega með því að lækka réttindaávinnsluna. Við þurfum að hafa í huga í því sambandi að þingmenn og ráðherrar hafa greitt hærra hlutfall launa sinna í lífeyrissjóð en almennt gildir um opinbera starfsmenn. Það var gengið svo langt að hlutfallið á milli réttindaávinnslunnar og innborgunar lífeyrisréttindanna var sambærilegt við það sem gildir hjá opinberum starfsmönnum. Í því tilliti var réttindaávinnslan ekki hraðari þegar tekið hefur verið tillit til þess að þingmenn og ráðherrar greiddu hærra hlutfall launa sinna í lífeyrissjóð.

Ég vil leyfa mér að mótmæla því sem segir í athugasemdum við frumvarpið að með lögunum frá 2003 hafi alþingismönnum verið færð betri réttindi vegna þess að við alþingismenn þurftum eftir þá lagasetningu að greiða hærra hlutfall af launum okkar í lífeyrissjóð. Var það mjög háð atvikum hvort réttindin að loknum þingmannsferlinum voru eitthvað betri en hefði gilt eftir eldri lögunum. Ég vil leyfa mér að koma þessu að, það er að mínu áliti rangt að halda því fram að með lögunum frá 2003 hafi þingmönnum verið færð ríkari lífeyrisréttindi.

Hvernig hafa þjóðirnar í kringum okkur hagað þessum málum? Þær þjóðir sem við horfum helst til í lagasetningartilliti hafa almennt hagað lífeyrisréttindum þeirra hópa sem við erum að fjalla um með sambærilegum hætti og gilt hefur hér á landi um langa hríð, þ.e. að réttindaávinnslan er nokkuð hröð. Þetta er samkvæmt þeim upplýsingum sem við vorum með og lágu til grundvallar umfjöllun um eftirlaunafrumvarpið frá 2003. Ég er þó með þann fyrirvara að ekki hafi orðið miklar breytingar á eftirlaunaréttindum þingmanna í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi, en við tókum það til skoðunar á þeim tíma. (Gripið fram í.) Í Danmörku eru full eftirlaunaréttindi áunnin eftir 20 ár, í Noregi eftir 12 ár, Í Svíþjóð eftir 12 ár, í Þýskalandi eftir 23 ár. Í Þýskalandi yrði hv. þm. Birkir J. Jónsson, sem stóð hér upp áðan og flutti fína ræðu, búinn að ávinna sér full eftirlaunaréttindi 46 ára gamall. (MÁ: Hvernig vilt þú hafa það?) Það þykir mér nú fulllangt gengið.

Þegar við fjöllum um þessi mál er ákveðin hætta á því — við skulum bara orða það þannig — að hér verði ákveðið kapphlaup niður á botninn. Sá sem biður um lægstu réttindin fyrir þingmennina er líklegastur til þess að njóta mestrar hylli hjá kjósendum vegna þess að krafan er öll um það að menn gangi á sín kjör. Það er mín skoðun. Það hefur ekki verið gert neitt í því frá því að ég sem formaður allsherjarnefndar mælti fyrir nefndaráliti eftir að frumvarpið frá 2003 kom til umfjöllunar í þinginu þar sem stóð að við ættum að færa ákvörðunarvaldið um þessi efni yfir til kjararáðs. Það er auðvitað ekkert vit í því að við séum stanslaust að hringla í kjörum þingmanna almennt, hvort sem það varðar þingfararkaupið sjálft eða lífeyrisréttindin.

Ég verð að segja að ég lít á þau réttindi sem við fjöllum um hér sem hluta af heildarkjörum þingmannanna. Ég held að það geri allir. Ég held að það eigi við um alla opinbera starfsmenn, alveg eins um þingmenn sem kjörnir eru beint af þjóðinni og aðra þá hópa sem eru að byggja upp lífeyrisréttindi sín, að þeir horfa til þeirra sem hluta af heildarkjörum sínum og hvers vegna skyldum við ekki gera það líka? Hvers vegna skyldi það ekki eiga við um þingmenn að lífeyrisréttindi þeirra séu skoðuð sem hluti heildarkjara þeirra?

Eigum við ekki þess vegna, fyrst við ætlum á annað borð að blanda okkur í þau mál og gera breytingar á heildarkjörum þingmanna með því að hreyfa við lífeyrisréttindunum, að leyfa okkur að fjalla um það í leiðinni hvort við teljum rétt að kjararáð horfi til þeirra skerðinga sem hér verða? Eða ætla menn að vera svo feimnir við þá umræðu að sleppa henni alveg? Það er ekki langt síðan ríkisstjórnin beindi þeim tilmælum til kjararáðs að skerða réttindi þingmanna og ég held að það hafi verið skynsöm ráðstöfun að ýmsu leyti þó að ég telji reyndar að lögin um kjararáð veiti kjararáði fullt svigrúm til þess að lækka launin vegna þess að þeir eiga auðvitað m.a. að horfa til þróunar á almennum vinnumarkaði. Ég vil meina sem sagt að sú þróun hefði gefið kjararáði tilefni til þess að lækka þingfararkaupið þegar fram í sækti, þegar gögnin voru farin að sýna þá þróun sem ég vísa hér til. En það var eflaust skynsamlegt og ég studdi þá ráðstöfun ríkisstjórnarinnar að stíga þetta skref og ég held að það hafi verið mjög til sátta fallið í samfélaginu að sýna þá viðleitni.

Spurningin er hins vegar sú, þegar þróunin verður á hinn veginn þegar fram í sækir, þ.e. að laun fara almennt að hækka, hvort þingið ætlar þá að senda kjararáði skilaboð um að leiðrétta þann mun sem þá er orðinn á kjörum þingmanna og annarra viðmiðunarstétta. Ég held að það væri óheillavænlegt að gera það. Ég held að það sé kominn tími til þess að við hættum að fjalla um okkar eigin kjör og, þrátt fyrir það sem ég sagði hérna áðan, mér fannst afar óheppilegt að þessum tilmælum hafi verið beint til kjararáðs. Ég vil gjarnan að við skoðum það í þinginu. Það verði þá gert á vettvangi nefndarinnar sem fær þetta mál til skoðunar, hvort ekki sé hægt að koma þessum málum til frambúðar til kjararáðs sem taki ákvarðanir um kjörin.

Aðeins nánar um efnisatriði frumvarpsins.

Hér segir í 3. gr.:

„Nú gegnir sá sem fær greidd eftirlaun samkvæmt lögum nr. 141/2003 eða samkvæmt eldri lögum er giltu um eftirlaun alþingismanna og ráðherra fyrir 30. desember 2003, starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, og koma þá launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar eftirlaunum.“

Síðan segir í greinargerð með þessu ákvæði að regla sé til samræmis við þá umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu, allt frá gildistöku laganna frá 2003, að ekki þyki forsvaranlegt að greiða óskert eftirlaun samhliða störfum á vegum ríkisins.

Það er nefnilega það. Er það reglan sem er verið að innleiða með þessu frumvarpi, að menn geti ekki sótt lífeyrisréttindi og stundað starf á vegum opinberra aðila? Nei, aldeilis ekki, það er aldeilis ekki verið að gera það með þessu frumvarpi. Eftir að þetta frumvarp verður samþykkt mun sú regla gilda áfram, að þingmenn sem hefja töku lífeyris á grundvelli réttindaávinnslunnar í A-deildinni, munu, eins og allir opinberir starfsmenn sem hafa áunnið sér réttindi samkvæmt þeim lögum, geta stundað vinnu og þegið eftirlaunaréttindi í samræmi við þá ávinnslu sem átt hefur sér stað. Það er verið að festa þá reglu í sessi með þessu frumvarpi.

Það er hins vegar verið að segja að þeir, sem falla í þann flokk að hafa áunnið sér réttindi samkvæmt lögunum frá 2003 eða samkvæmt eldri lögum sem giltu um eftirlaun alþingismanna og ráðherra fyrir þann tíma, megi alls ekki sinna opinberu starfi og þiggja eftirlaun á sama tíma. Hvaða samræmi er í þessu? Ég held að þetta geri ekkert annað en að slá ryki í augu fólks. Þetta opinberar bara þann misskilning sem alltaf hefur verið um lögin frá 2003, að þar hafi með einhverjum hætti verið sett ný regla um að þingmenn og ráðherrar gætu gert hvort tveggja í senn, þegið eftirlaun og starfað hjá hinu opinbera. Það var ekki reglan sem sett var með lögunum frá 2003. Sú regla hefur hins vegar gilt um opinbera starfsmenn um langa hríð og hefur verið komið aðeins inn á það hér í umræðunni um þetta frumvarp fyrr í kvöld. Það er reglan sem verið er að setja með þessum lögum að eigi að gilda áfram og ef menn telja í greinargerð með frumvarpinu að um það standi svo mikill styr, spyr ég hvers vegna menn innleiði þá þessa reglu sérstaklega.

Það er hins vegar tilfellið að í mjög afmörkuðum tilvikum gátu menn, á grundvelli laganna frá 2003, hafið töku lífeyris áður en þeir urðu sextugir enda hefðu þeir þá gegnt æðstu embættisstöðum um langa hríð. Að því leytinu til má segja að frumvarpið gegni því hlutverki að koma í veg fyrir að þeir sem geta á grundvelli laganna hafið töku lífeyris fyrir sextugt, geti á sama tíma farið í stöðu hjá hinu opinbera.

Hvað með það þegar þeir eru orðnir sextugir? Hvað með það þegar þeir eru orðnir 63 ára? Mega þeir þá ekki vera í opinberu starfi? Mega þingmennirnir sem starfa samkvæmt nýju reglunni einir gera það? Hvað með þegar þeir eru orðnir 64 ára? Þá mega þeir ekki enn þá fara í opinbert starf en það mega allir opinberir starfsmenn gera, aðrir en þeir sem áunnu sér réttindi á grundvelli gildra laga, laga sem við samþykktum á þinginu. Mér finnst þetta vera mikill ágalli á frumvarpinu og það virðist, eins og ég sagði áðan, byggja á þeim almenna misskilningi að við höfum sett einhverjar sérreglur í þessu efni á árinu 2003.

Að öðru leyti, þannig að það sé skýrt, vil ég taka það fram að mér þykir það sanngjarnt og eðlilegt að réttindaávinnsla þingmanna og þeirra sem gegna æðstu embættisstörfum fyrir þingið sé í hlutfalli við framlag þeirra og mér finnst ágætt að miða við það sem gildir um opinbera starfsmenn. En þá verður, um leið og menn gera breytingar eins og þessa, að taka til skoðunar heildarkjör þeirra sem verið er að fjalla um. Þess vegna þurfum við að svara spurningunni: (Forseti hringir.) Á að leiðrétta kjör hæstaréttardómara, forseta, þingmanna og ráðherra samhliða þeim breytingum sem verið er að gera á heildarkjörum þeirra í þessum málum?