136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að minnast aðeins á löggjöfina sem var samþykkt árið 2003 og taka undir málflutning hv. þingmanns að sá útbreiddi misskilningur virðist vera í samfélaginu að almennir þingmenn hafi með samþykki sínu á því frumvarpi sem þá lá fyrir verið að bæta kjör sín sérstaklega. Þvert á móti, við almennir þingmenn vorum, ef eitthvað er, að skerða kjör okkar því að iðgjaldið hækkaði en réttindaávinnslan jafnvel skertist á móti, þannig að við skulum halda því til haga í þessari umræðu.

Ég ætla heldur ekki að vera einn af þeim sem tala kjör og réttindi alþingismanna niður á botninn, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég tel hins vegar í ljósi einstakra aðstæðna í samfélaginu að þjóð og þing þurfi að ganga í takt, við þurfum að samræma með einhverjum hætti þessa réttindaávinnslu og ég lít þannig á, fyrst hv. þingmaður varpar fram þeirri spurningu, að við séum fyrst og fremst að jafna réttindin eins og mál standa.

Annars vil ég nefna þær ábendingar sem hv. þingmaður kom með varðandi það að eftirlaunaþegar geti stundað vinnu hjá ríkinu eða þeir sem hafa tekjur úr lífeyrissjóðum, opinberir starfsmenn, mér finnst að það þurfi að skoða þetta sérstaklega í nefndinni, þ.e. þetta misvægi á milli þeirra sem undir lögin frá árinu 2003 voru settir og gagnvart þessum lögum. Ég tel að margar ábendingar hafi komið fram í máli hv. þingmanns sem við þurfum að skoða á vettvangi efnahags- og skattanefndar, hér er náttúrlega um ákveðið prinsippmál að ræða.

En ég er sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að það er hallærislegt að þingmenn standi hér í ræðupúlti Alþingis og þurfi að ræða um kjör sín og réttindi. Mér finnst slíkt ekki eiga heima í þingsölum Alþingis heldur sé annarra um það að dæma. Ég fer ekkert ofan af því og styð því viðleitni hv. þingmanns í þeim efnum að koma þessari umræðu í eitt skipti fyrir öll út úr sölum Alþingis.