136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingar hans, við virðumst vera sammála um ýmis atriði í þessu máli. Mér finnst grundvallaratriði að menn átti sig á því að verði þetta frumvarp samþykkt munu þingmenn, ráðherrar, forsetinn og hæstaréttardómarar geta unnið hjá hinu opinbera á sama tíma og þeir þiggja eftirlaun, þannig að það sé alveg á hreinu. Það er reglan sem gilti fyrir 2003 og það er reglan sem verið er að leggja til að gildi framvegis. Það var eitthvað aukið við réttindi manna til að taka lífeyri fyrr með lögunum frá 2003 og það var komið til móts við það með breytingum á lögunum í vetur. En nú er tekin alveg skýr afstaða til þess að það sé ekkert athugavert við að þeir aðilar sem frumvarpið tekur til þiggi lífeyri á sama tíma og þeir eru í opinberu starfi frekar en gildir um opinbera starfsmenn. Þá er það á hreinu. Þetta frumvarp segir hins vegar að þeir sem hafa áunnið sér rétt samkvæmt lögunum frá 2003 eða hafa áunnið sér lífeyrisréttindi samkvæmt þeim lögum sem giltu um ráðherra og þingmenn frá því fyrir 2003 megi það ekki. Þeir einir mega alls ekki vinna hjá hinu opinbera og þiggja á sama tíma lífeyri. Allir opinberir starfsmenn mega það, þeir sem ávinna sér lífeyrisréttindi samkvæmt þessu frumvarpi mega gera það, en bara ekki þeir sem þiggja lífeyri á grundvelli laganna frá 2003 eða fyrir þann tíma. Mig skortir skýringar á þessu.